Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 11:38:36 (3346)

2000-12-14 11:38:36# 126. lþ. 49.12 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv. 166/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alveg á því fullan skilning að hv. þm. líði illa í ræðustól þegar rætt er um barnabæturnar. Framsfl. er í vondum málum, eins og sagt er. Nú sjáum við hvernig Framsfl. efnir kosningaloforð sín. Framsfl. efnir kosningaloforð sín með framsóknarlaginu, þ.e. segir við fólk fyrir kosningar hvað hann ætli að gera og stendur ekki við það þegar í stjórnarstólana er komið. 2 milljarðar kr. hafa verið teknir af fólki á síðustu fimm árum og þeim á að skila aftur á næstu þremur árum án þess að staðið sé við kosningaloforð framsóknarmanna um að ótekjutengdar barnabætur eigi að ná til allra barna.

Við lýsum hér bara raunveruleikanum. Við erum ekki að fara með neitt fleipur. Hv. þm. talar eins og ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson förum með fleipur. Þetta er bara staðreynd sem þjóðin þekkir núorðið, að framsóknarmenn ætla ekki að standa við loforð sitt um barnabæturnar sem var helsta loforð þeirra í kosningabaráttunni. Þetta verður ekki í síðasta skipti sem við ræðum það, herra forseti.

Hvað varðar ótekjutengdar barnabætur þá eru þær miklu minni núna en þær voru á árinu 1995 og verða það einnig eftir þrjú ár. Ég get alveg sagt, herra forseti, hvað ég vil varðandi barnabæturnar. Ég vil hafa þær ótekjutengdar en vil að jöfnunin komi fram í skattkerfinu, t.d. með fjölgun skattþrepa, með fjölþrepa skattkerfi. Þannig eigum við að jafna skattbyrðina í þjóðfélaginu en líta til barnabótanna eins og önnur siðuð þjóðfélög sem við berum okkur saman við. Við erum sér á báti með að tekjutengja barnabætur hvað þá að við skulum hafa þær svo mikið tekjutengdar sem raun ber vitni. Jöfnunin á að koma fram með öðrum hætti í skattkerfinu.

Því miður, herra forseti, staðreyndin við lokaumræðu málsins er: Framsfl. ætlar ekki að standa við kosningaloforð sitt. Þar við situr eftir umræðuna.