Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 13:41:32 (3366)

2000-12-14 13:41:32# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum. Það er frá meiri hluta landbn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fulltrúa frá landbrn. Þá bárust umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra loðdýraræktenda, Landssamtökum sauðfjárbænda, Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, yfirdýralækni, Dýraverndunarsambandi Íslands og Hundaræktarfélagi Íslands.

Í frv. eru ekki lagðar til breytingar á núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra og í engu slakað á kröfum um sóttvarnir. Hins vegar er lagt til að ákvæði laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, verði aðlöguð því fyrirkomulagi á rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva sem komist hefur á og að landbúnaðarráðherra geti falið einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum rekstur þeirra undir eftirliti yfirdýralæknis.

Með breytingunni er á engan hátt slakað á kröfum, eins og ég sagði, um sóttvarnir sem gildandi lög kveða á um. Að öðru leyti fela ákvæði frv. í sér aðlögun laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, að þeirri þróun löggjafar á þessu sviði sem orðið hefur frá því að lögin voru sett árið 1990.

Undir nál. rita Hjálmar Jónsson, Guðjón Guðmundsson, Jónína Bjartmarz, Jónas Hallgrímsson og Drífa Hjartardóttir. Einar Oddur Kristjánsson og Guðmundur Árni Stefánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

,,7. gr. orðist svo:

Í stað orðanna ,,búfjárræktarnefnda sem starfa eftir lögum um búfjárrækt`` í 11. gr. laganna kemur: fagráðs sem starfar samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998.``

Þetta er gert þar sem þau hafa tekið gildi. Að öðrum kosti væri verið að vísa í brottfallin lög.