Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 13:51:04 (3375)

2000-12-14 13:51:04# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. 1. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Að mörgu leyti get ég tekið undir efni frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. hvað varðar nauðsyn þess að við séum með öflugar sóttvarnir við innflutning á dýrum. Í áliti okkar í 1. minni hluta stendur, með leyfi forseta:

,,Þingmenn Samfylkingarinnar í 1. minni hluta landbúnaðarnefndar telja mikilvægt að vel sé staðið að öllum útbúnaði sóttvarna- og einangrunarstöðva þegar kemur að innflutningi dýra. Slíkt er óumdeilt.

Það er hins vegar arfur liðins tíma að rekstur slíkra stöðva skuli heyra beint undir landbrn. eins og verið hefur, ellegar að útvaldir aðilar sjái um slíkan rekstur í umboði ráðuneytisins og geri það nánast á reikning þess eins og lagt er til í frv. þessu.

Í því sambandi má nefna rekstur einangrunarstöðvar fyrir gæludýr í Hrísey sem hefur kostað ríkissjóð umtalsverða fjármuni. Fyrir hefur legið áhugi dýralækna og annarra sérfræðinga á því að bjóða upp á svipaða þjónustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir innflytjendur gæludýra og verið hefur í Hrísey. Engin rök eru fyrir því að standa gegn slíkum áformum svo fremi reksturinn falli í einu og öllu að gildandi lögum og reglugerðum og öðrum nauðsynlegum skilyrðum sem eru og verða sett um aðbúnað og rekstur slíkra sóttvarna- og einangrunarstöðva.

Landbrh. hefur aftur á móti lýst því yfir að hann hafi ekki hug á að heimila nýjum aðilum rekstur á þessum vettvangi.``--- Það hefur ótvírætt komið fram af hans hálfu. --- ,,1. minni hluti telur hins vegar alls óljóst, miðað við þær breytingar sem lagðar eru til í frv. og meiri hlutinn hefur lýst yfir stuðningi við, hvort landbrh. hafi í raun heimild til að hafna umsóknum nýrra aðila um slíkan rekstur. Ljóst er hins vegar að túlkun ráðherra á frv., rétt eða röng, liggur fyrir.

Til að taka af öll tvímæli í þessum efnum flytur 1. minni hluti brtt. við frv. sem kveður skýrt á um það að einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum skuli heimilt að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar undir eftirliti yfirdýralæknis. Þá skuli landbrh. enn fremur ákveða með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur séu gerðar um útbúnað slíkra stöðva og hvaða skilyrði þær þurfi að uppfylla til að hljóta starfsleyfi.``

Í þessu sambandi vil ég taka fram að ég tel ekki grundvöll fyrir fjölda einkarekinna stöðva. Ég tel hins vegar grundvöll fyrir eina slíka stöð fyrir gæludýr á suðvesturhorninu, sem auðvitað yrði þá að standast allar kröfur í lögum um sóttvarnir.

,,Með samþykkt þessarar breytingartillögu yrði það ekki lengur á geðþóttavaldi landbrh. hver hlyti slíkt starfsleyfi né heldur væri óljóst um rétt þeirra sem sækjast eftir slíkri leyfisveitingu.

1. minni hluti leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Efnismálsgrein 5. gr. orðist svo:

Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal starfrækja sóttvarna- og einangrunarstöðvar. Landbrh. gefur út starfsleyfi fyrir rekstri slíkra stöðva. Einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum skal vera heimilt að reka sóttvarna- og einangrunarstöðvar undir eftirliti yfirdýralæknis. Landbrh. ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, hvaða kröfur eru gerðar um útbúnað sótt varna- og einangrunarstöðva og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að hljóta starfsleyfi.``

Undir þetta nefndarálit rita Guðmundur Árni Stefánsson og Sigríður Jóhannesdóttir.

Svo vildi til að þetta mál var afgreitt nokkuð óvænt, mundi ég segja, á þriðjudagsmorgni. Á miðvikudagsmorgni var að vísu lögbundinn fundartími fyrir hv. landbn. en vegna aukafundar á mánudegi hafði hv. landbn. ákveðið að hafa ekki fleiri fundi fyrir jól og hafði því verið frestað að taka þetta mál fyrir þar sem talið var að ekki lægju fyrir nefndinni umsagnir aðila sem ótvírætt ættu að hafa eitthvað um þetta að segja.

Á fundinum á miðvikudagsmorgni lágu þessar umsagnir fyrir. Það vildi svo til að sá nefndarmaður sem hér stendur gat af óviðráðanlegum orsökum ekki komist á fundinn fyrr en tíu mínútum eftir að hann hafði verið settur. Þá hafði málið verið afgreitt í nefndinni og töluvert umfangsmiklar og þýðingarmiklar umsagnir höfðu ekki verið teknar fyrir, a.m.k. eins og bar að gera að mínum dómi. Ég vil átelja þessi vinnubrögð nefndarinnar sérstaklega.

Vegna þess að ekki tókst að fjalla um þessi álit í nefnd þá langar mig að lesa nokkra valda kafla úr þeim. Fyrst kemur umsögn Hundaræktarfélags Íslands sem eru tvímælalalaust þau félagasamtök þar sem félagsmenn eru flestir að flytja hunda til Íslands eða stærsti hlutinn af þeim. Þeir segja í sinni umsögn:

,,Langvarandi óánægja hefur ríkt meðal gæludýraeigenda ...``

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að leyfi forseta þarf til að lesa upp úr rituðu máli.)

Með leyfi forseta:

,,Langvarandi óánægja hefur ríkt meðal gæludýraeigenda vegna staðsetningar einangrunarstöðvar fyrir gæludýr á Íslandi. Sú staðreynd liggur fyrir að 95% innflytjenda gæludýra búa á Suðurlandi eða Suðvesturlandi. Þótt einangrunarstöð hafi í upphafi verið sett upp svo fjarri heimilum innflytjenda dýranna er ljóst að staðsetningin er barn síns tíma og hefur fleiri ókosti en kosti. Í ljósi þessara upplýsinga er kominn tími til að leyfður verði einkarekstur á einangrunarstöðvum fyrir gæludýr á Íslandi. Hundaræktarfélag Íslands telur að samkeppni á því sviði muni koma innfluttum gæludýrum og eigendum þeirra til góða.``

Meðfylgjandi er undirskriftalisti þar sem um þúsund manns skora á hæstv. landbrh. að breytingar verði gerðar á núverandi fyrirkomulagi. Áskorunin hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Ástandið í innflutningsmálum gæludýra hefur verið óþolandi um langa hríð. Einangrunarstöð ríkisins í Hrísey hefur aldrei annað eftirspurn og álagi. Dýraeigendur hafa þurft að bíða mánuðum saman eftir plássi í óvissu og skipulagsleysi sem einokunarstarfsemin býður upp á. Staðsetning stöðvarinnar gerir flutning dýranna áhættusaman og erfiðan fyrir dýrin auk þess sem staðsetning og reglur um heimsóknir hafa hindrað eigendur dýranna í að hafa eðlilegt aðhald með starfsemi stöðvarinnar.``

Þetta var smákafli úr umsögn sem Hundaræktarfélagið gaf.

Svo kom hér umsögn frá Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands sem ég ætla einnig að lesa úr, með leyfi hæstv. forseta:

,,Svo á að heita að samkvæmt lögum verði öll dýr sem koma til landsins að fara í einangrun en framkvæmdin hefur verið mjög mismunandi. Undanfarið hefur ríkt ófremdarástand á innflutningi hunda og katta til Íslands vegna plássleysis í Hrísey og nú eftir að stækkunin var tekin í notkun hafa biðlistar styst um helming svo að betur má ef duga skal.``

Það eru sem sagt enn þá langir biðlistar.

[14:00]

,,Vart er hægt að finna óhentugri stað fyrir einangrunarstöð gæludýra en Hrísey sem er eins langt frá flugvellinum í Keflavík og hægt er. Ferðalagið þangað er mikil þolraun fyrir dýrin í viðbót við flugferðina til landsins og hugsanleg ferðalög áður í landinu sem þau komu frá. Mun flugferðin erlendis frá ásamt leiðinni til Hríseyjar vera brot á væntanlegri samþykkt Evrópuráðsins um flutningsvegalengd dýra.``

Reyndar var mér tjáð að þetta væri þegar komið inn í Evrópureglur og að þar væri kveðið á um að það mætti í mesta lagi vera átta tíma flutningur milli heimilis og sóttvarnastöðvar.

Svo ætla ég að lesa á öðrum stað í áliti Dýraverndunarfélagsins, það sem er raunar það alvarlegasta sem kemur fram í þessu áliti:

,,Jafnframt fer einangrunin að verulegu leyti forgörðum á leiðinni til Hríseyjar. Þegar til Keflavíkur er komið er ekki gert ráð fyrir neinum stað fyrir hundana eða kettina og er þeim komið fyrir í vistarverum efnaleitarhundanna sem þurfa að víkja á meðan. Kostar þetta mikla sótthreinsun og vinnu.`` --- Ég hef upplýsingar um að sú sótthreinsun sé kannski ekki alveg eins ítarleg og efni standa til. --- ,,Þaðan er dýrunum ekið á Reykjavíkurflugvöll en þar eru þau geymd í almennri vörugeymslu þar til flogið er til Akureyrar. Ekki er hægt að vakta það sérstaklega að enginn komist í búrin sem eru oft mjög óhrein eftir flugið erlendis frá og hefur SDÍ oft orðið vitni að því ...``

(Forseti (GuðjG): Forseti biður um hljóð í salnum meðan hér er verið er að halda ræðu. Ef hv. þingmenn þurfa að spjalla saman geta þeir vikið sér í hliðarsal á meðan.)

,,... að fólk flykkist að búrunum til að láta vel að dýrunum. Á Akureyrarflugvelli eru dýrin geymd í almennri flugfrakt á sama hátt og í Reykjavík þar til þeim er ekið til Árskógssands og sett þar um borð í Hríseyjarferjuna en þar eru þau höfð uppi á dekki og ekki vöktuð sérstaklega. Síðan er þeim ekið til Einangrunarstöðvar gæludýra í Kríunesi. Ljóst er að ekki er mögulegt að viðhalda einangrun dýranna á meðan á öllu þessu ferðalagi stendur.``

Hæstv. forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram að athugasemdir mínar við þessa 5. gr., sérstaklega eins og hún stendur eftir þær yfirlýsingar sem hæstv. landbrh. hefur gefið, miða ekki síst að því að ég er andvíg því að gæludýrum sé gert að fara í einangrunarstöðina í Hrísey þegar unnt væri að bjóða upp á mjög góða valkosti nálægt flugvellinum. Ég hef upplýsingar um að sótt hafi verið um leyfi fyrir slíka stöð, því leyfi hafi verið hafnað og sú höfnun sé nú í meðferð hjá umboðsmanni Alþingis.

(Forseti (GuðjG): Forseti verður enn að biðja hv. þm. að hætta samtölum í salnum og það á líka við um hæstvirta ráðherra. Ef fólk þarf að tala saman verður það að fara í annað herbergi á meðan.)

Það er eðlilegt að fólk þurfi að ráðslaga mikið þegar það heyrir hversu alvarlegt efni hér er á ferðinni. Ég vona að það sé af einlægri dýraást og tilliti til dýraverndar sem fólki hér hitnar í hamsi og ég vona að þetta frv. fái verðuga meðhöndlun sem þau dýr sem við erum að flytja hingað til landsins verðskulda.