Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:57:22 (3397)

2000-12-14 14:57:22# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var undarleg ræða flutt og í henni mikið yfirboð og ég vil segja mikill tvískinnungur. Undarlega mikill tvískinnungur. Hv. þm. leyfir sér að tala um að það eigi nánast að vera eins og bisniss fyrir hvern mann sem það dettur í hug að reka hér gæludýrastöð til verndar í nokkrar vikur til þess að verja öryggi þeirra dýra sem fyrir eru í landinu og forðast það að smitsjúkdómar berist. Hv. þm. hlýtur að skilja að um slíkan rekstur verða að gilda ströng lög og að uppfylla þarf ákveðin starfsskilyrði. Þetta er ekki verkefni margra aðila að fást við. Það hvarflar því varla að mér að eyða orðum að yfirborðsræðu eins og hér var flutt. Það er nánast eins og ætti að lögsetja að í hverju byggðarlagi væri rekin gæludýrastöð af þeim toga sem nú er í Hrísey. Ég undrast þennan málflutning hv. þm. og hef ekki átt honum að venjast úr þessari átt.

Það er alveg ljóst í þessu máli að farið verður yfir hvert mál. Ég segi það enn og aftur að blessun hefur verið yfir þessu mikla starfi í Hrísey og hver umsókn sem kemur fær umfjöllun. Ég hef margsagt hér úr stóli að þegar við förum yfir fimm síðustu ár eru þetta 100 dýr á ári sem er verið að flytja til landsins. Það er því ekki stór bisniss sem hér er um að ræða. Ég held að menn verði að virða það frv. sem hér er komið fram. Það mótar ákveðna stefnu sem verður vandlega farið yfir í hverju tilviki.

Hins vegar fagnaði ég lokapunktinum í ræðu hv. þm. þegar hann vitnaði í ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur. Hann ítrekaði að hann væri sama sinnis og hún og taldi mig hafa farið rangt að við hana en hún rökstuddi sitt mál vel að hún vill hafa hér sterk lög og góðar reglur.