Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:01:54 (3399)

2000-12-14 15:01:54# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. er hugað um stöðu skattborgaranna þá er náttúrlega alveg ljóst að innflytjendur gæludýra borga fyrir þjónustu í þessum stöðvum. Þetta eru ekki allt saman ríkisins peningar og ríkisins verkefni. Hver sá einstaklingur sem kemur að því að flytja inn dýr borgar fyrir ákveðna þjónustu sem er fyrir hendi.

Er hlutverk ráðherra að meta bisness? Ég hef einungis sagt: Þetta er heilbrigðismál. Þetta er vandmeðfarið mál. Þetta er ekki stór bisness. Þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson leyfir sér trekk í trekk að tala eins og þetta geti verið verkefni margra stöðva og margra manna og ætti að fletja þetta út og gera það að allra verkefni þá ofbýður mér málflutningurinn. Auðvitað liggur það fyrir að í þessu litla landi þar sem þessi fáu dýr eru getur þetta aldrei öryggisins vegna --- til að halda utan um það af því öryggi sem þarf --- orðið verkefni mjög margra.

Ég hef ekki talað óskýrt í þessu. Ég hef sagt: Ég ætla ekki að beita mér fyrir því að fleiri stöðvar verði opnaðar. En ég hef jafnframt sagt: Auðvitað eiga menn rétt sinn samkvæmt lögum þegar þetta frv. er komið í gegn og samkvæmt ýmsum öðrum lögum til þess að farið sé yfir mál þeirra og þetta metið. Hins vegar horfi ég miklu frekar til yfirdýralæknisembættisins og þeirra sem fara með sjúkdómavarnir í landinu og tek meira mark á þeim en hv. þm. sem stundar í þessu máli undarleg yfirboð.