Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:11:00 (3403)

2000-12-14 15:11:00# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur oft komið fram í dag að meiningarmunur er um hversu langt skuli gengið í þessu efni. Mörg rök hníga vissulega að því að hafa stöð nær flugvelli á Reykjanesinu. Ég hef ekki andmælt þeim rökum. Ég vil nú vekja athygli á því. Ég skil þau mætavel. En ég treysti því hins vegar einnig að hæstv. landbrh. muni svo búa um hnútana að menn geti vel við unað.

Hvað varðar alvarlegar athugasemdir eða ásakanir, ef ég heyrði það rétt, af hálfu Dýraverndunarfélags Íslands --- var það ekki svo? --- þá hyggst ég senda þær umsagnir til hæstv. landbrh. til athugunar og ég vænti þess og treysti því að hann muni kanna þær og gera viðeigandi ráðstafanir ef eitthvað alvarlegt er að.

Að sjálfsögðu er landbn. starfandi allt árið og getur alltaf brugðist við reynist slíkar ásakanir sannar sem hv. þm. gat um áðan.