Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:14:37 (3405)

2000-12-14 15:14:37# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, Frsm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. umhvn. um frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Nefndin hefur ítarlega fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun ríkisins og Ívar Pálsson frá Borgarskipulagi Reykjavíkur.

[15:15]

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Hollustuvernd ríkisins, Veðurstofu Íslands, Orkustofnun, Almannavörnum ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Akraneskaupstað, Skipulagsstofnun, Landgræðslu ríkisins, Vinnueftirliti ríkisins, Ísafjarðarbæ, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Meistarafélagi húsasmiða, Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, embætti borgarverkfræðings Reykjavíkurborgar, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Borgarskipulagi Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins, Arkitektafélagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Ýmislegt í frv. hefur verið rætt ítarlega og eins og fram kemur í nál. er tekið á vissum atriðum, m.a. ýmsum breytingum. Það sem kalla mætti stóra breytingu er hins vegar stofnun Skipulagssjóðs en honum er ætlað að standa undir verkefnum fyrir sveitarfélögin. Skipulagsstofnun verður alfarið með fjárveitingar frá Alþingi framvegis og verður rekin á föstum fjárlögum.

Alls konar deiliskipulags- og löggildingarmál hafa verið til umræðu samfara þessu frv. og í 4. gr. er sérstaklega getið um svæðisskipulagsmeðferð vegna mannvirkja og áætlana sem ná til fleiri en eins sveitarfélags, t.d. vegna þjóðvega, orkumannvirkja og fjarskiptalína, og skógræktaráætlanir. Talið hefur verið nauðsynlegt að svæðisskipulagsmeðferð taki á áætlunum sem ná yfir stór svæði sem eðlilegt má telja.

Löggildingarmál hönnuða voru einnig til umræðu og koma fram í nál. Þar er fyrst og fremst um að ræða að ná jafnræði milli stétta og skerpt á atriðum er varða undanþágur í frv.

Heimild ráðherra til að veita undanþágur frá skipulagsreglugerðum og byggingarreglugerðum er einnig skoðað sérstaklega í nál. Þær undanþágur eru einungis hugsaðar í smávægilegum málum og algjörum undantekningartilvikum. Slíkar heimildir eru þó til í öðrum lögum fyrir ráðherra til að breyta reglugerðum og í því sambandi má nefna sérstaklega lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í b-lið 5. gr. í frv. er sérstök heimild til að auglýsa samtímis aðal- og deiliskipulag. Það er eitt af þeim málum sem oft hafa vafist fyrir mönnum og skapað misskilning, að verið sé að auglýsa aðalskipulagið fyrst og síðan deiliskipulagið á eftir. Eins og fram kemur í skýringum með frv. hefur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála nýlega kveðið upp úrskurð um að 1. mgr. 23. gr. laganna hafi ekki gefið kost á slíku heldur beri að ganga frá aðalskipulagsbreytingum að fullu áður en deiliskipulagstillagan er kynnt. Þess vegna er í frv. lögð til sú breyting sem ég minntist á. Það eru ítarleg gögn sem liggja fyrir við kynningu aðalskipulags og kynning á tillögunum hvorri í sínu lagi getur valdið misskilningi þannig að hagsmunaaðilar telji sig þegar hafa komið með athugasemdir sínar við tillögu um aðalskipulag. Sá háttur að ganga frá aðalskipulagsbreytingu að fullu áður en deiliskipulagstillagan er auglýst hefur auk þess haft í för með sér að breytingartillögur hafa tafið mál, jafnvel allt að þrjá mánuði.

Nefndin leggur fram nokkrar brtt. sem eru svohljóðandi:

,,1. Við 5. gr. Á eftir orðinu ,,deiliskipulagi`` í a-lið komi: eða breytingu á deiliskipulagi.``

Í þessu felst aðallega að landeigandi borgi deiliskipulag en sveitarfélög borgi auglýsingakostnað. Þetta kom til nokkurrar umræðu í nefndinni. Menn voru sammála um að þessir þættir mundu allir koma til sérstakrar skoðunar við heildarendurskoðun málsins sem gert er ráð fyrir að verði á næsta ári.

,,2. Við 7. gr. B-liður falli brott.``

B-liður 7. gr. er um skipulagsgjald af mannvirkjum. Gert er ráð fyrir að sá liður verði endurskoðaður við heildarendurskoðun laganna. Hér er fyrst og fremst um að ræða mannvirki sem ekki eru háð byggingarleyfi og greitt skipulagsgjald af, aðal- og dreifiæðar vatnsveitna og önnur mannvirki, raforkumannvirkja o.s.frv. Þessi liður fellur brott samkvæmt brtt.

,,3. Við 13. gr. Greinin orðist svo:

1. málsl. 3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo: Arkitektar, byggingarfræðingar, verkfræðingar, tæknifræðingar, innanhússarkitektar, landslagsarkitektar og rafiðnfræðingar er sækja um löggildingu skulu standast próf sem þriggja manna prófnefnd sérfróðra aðila annast.``

Þetta varðar löggildingarsvið og starfsreynslu hjá löggiltum aðilum á þessu sviði. Talið er að hér sé um það mikla breytingu að ræða að nauðsynlegt sé að þetta atriði verði kannað nánar við heildarendurskoðun.

,,4. Við 15. gr. Greinin orðist svo:

Í stað 2. tölul. 2. mgr. 51. gr. laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:

2. Arkitektar, byggingarverkfræðingar, byggingartæknifræðingar, byggingarfræðingar og aðrir verkfræðingar og tæknifræðingar með hliðstæða menntun á byggingarsviði.

3. Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfar aðili sem uppfyllir skilyrði 1. eða 2. tölul., enda annist hann störf byggingarstjóra.``

Samkvæmt þessu fellur 1. tölul. alveg út og eftir standa 2. og 3. tölul. í 15. gr. frv. Ég tek fram að þetta kemur síðan allt til skoðunar við heildarendurskoðun laganna á næsta ári.

,,5. Við 19. gr. Á eftir a-lið komi nýr stafliður er orðist svo: Í stað orðanna ,,1. júlí 2001`` í 4. málsl. 10. tölul. kemur: 1. júlí 2002, en sækja skal um að fara á námskeið samkvæmt þessu ákvæði fyrir 1. september 2001.``

Hér er einungis lengdur sá frestur sem menn hafa fengið til þess að afla sér réttinda á námskeiðum á vegum ráðuneytisins. Námskeiðin hafa verið mjög eftirsótt. Miklu fleiri sóttu um en gert hafði verið ráð fyrir. Þar af leiðandi rúmaðist þetta ekki innan tímans sem hafði verið ákveðinn. Það er ástæðan fyrir því að fresturinn er lengdur til 1. júlí 2002.

Herra forseti. Á fundi hv. umhvn. í gærkvöldi var tekið fyrir sérstakt erindi frá nokkrum aðilum sem barst reyndar seint, eftir að við höfðum gengið frá málinu í heild sinni. Þetta nál. er um frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, með síðari breytingum, eins og það fyrra en þar segir, með leyfi forseta:

,,Eftir að málið var afgreitt úr nefndinni bárust umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, Arkitektafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Náttúruvernd ríkisins, Landvernd, Siglingastofnun, skipulagsfulltrúa Garðabæjar og skipulagsstjóra Hafnarfjarðar og Brunamálastofnun.

Vegna umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem barst nefndinni eftir að umsagnarfresti lauk, ákvað nefndin að taka málið til frekari umfjöllunar.``

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var greint frá áhyggjum af því að breytingar á fjárstreymi til Skipulagsstofnunar vegna breytinga á gjaldstofni gerðu það að verkum að sveitarfélögin þyrftu að greiða meira af skipulagsvinnunni sjálf eða sem næmi ákveðinni upphæð. Eftir nákvæma athugun á þessu máli með sveitarfélögunum, skipulagsstjóra og fulltrúum umhvrn. fékkst sú niðurstaða að ekki væri ástæða fyrir sveitarfélögin að óttast þetta. Við í hv. umhvn. teljum tryggt að sveitarfélögin muni ekki bera fjárhagslegan skaða af þessari breytingu.

Á þessum fundi með nefndinni voru Ingimar Sigurðsson og Kristín Linda Árnadóttir frá umhvrn., Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og Þórður Skúlason og Sigurður Óli Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Allir nefndarmenn nema hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem var fjarverandi, undirrita frhnál. Hv. þm. Jóhann Ársælsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, rituðu undir álitið með fyrirvara en Kristján Pálsson, Ásta Möller, Katrín Fjeldsted, Gunnar Birgisson og Jónas Hallgrímsson rita undir það án fyrirvara.

Ég geri ráð fyrir að minni hlutinn standi því með sömu fyrirvörum að frhnál. Ég vænti þess að það komi fram í máli fulltrúa minni hlutans.