Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:46:13 (3408)

2000-12-14 15:46:13# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að koma nokkrum athugasemdum á framfæri en eins og hv. frsm. hefur látið getið skrifar stjórnarandstaðan undir frhnál. hv. umhvn. með fyrirvara. Við erum í sjálfu sér samþykk þeim breytingum sem er verið að gera á skipulags- og byggingarlögum enda eru þær til bóta eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna. Ýmislegt þurfti að laga og ýmsa vankanta þurfti að sníða af.

Herra forseti. Þessi þriggja ára gömlu lög, skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, þurfa greinilega heildarendurskoðunar við og sú heildarendurskoðun hefur verið margboðuð af hálfu stjórnvalda. Nú lít ég svo á að þau orð standi að sú heildarendurskoðun hefjist strax á nýju ári því að það er alveg ljóst að lagabálkur sem þessi krefst mikillar og nákvæmrar yfirlegu. Þessu verður ekki þrýst í gegnum umhvn. á nokkrum dögum, herra forseti, enda væru það vægast sagt mjög ámælisverð vinnubrögð.

Athugasemdir mínar við þetta frv. eiga fyrst og fremst við vinnubrögðin. Fjallað var um málið og það tekið í gegnum hv. umhvn. á einum degi, á mánudaginn var. Svo héldu umsagnir áfram að berast á þriðjudag og miðvikudag og um miðjan dag í gær var orðið ljóst að kannski þyrfti að kalla saman nefndina aftur til þess að fjalla betur um þær umsagnir sem höfðu borist. Varaformaður nefndarinnar varð við þeirri ósk og kallaður var saman fundur í hv. umhvn. í gærkvöldi þar sem farið var yfir nokkrar spurningar, sérstaklega frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Síðast í dag var að berast umsögn sem ég fann í hólfinu mínu áðan frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Það er alveg ljóst, herra forseti, að svona vinnubrögð ganga ekki. Þau eru ekki samboðin virðingu þingsins. Það verður hreinlega að sjá til þess að nefndir hafi þann tíma sem þarf til þess að fjalla um mál og gera þær breytingar sem þörf krefur. Þess vegna stóla ég á það, herra forseti, að þegar heildarendurskoðunin hefst þá verði það snemma á næsta ári og að gefinn verði allur sá tími til hennar sem þörf krefur og þegar henni verði lokið verði búið að sníða alla vankanta eða langflesta vankanta af skipulags- og byggingarlögunum.

Mig langar til að gera að umræðuefni 3. og 5. gr. frv. Í 3. gr. er lagt til að hæstv. umhvrh. verði veitt heimild að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar til að veita undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar. Eins og fram kemur í nál. hv. umhvn. er það skilningur okkar allra að þessi heimild eigi einungis við litlar breytingar, svokölluð smámál, og hana megi ekki nota til annars. Ég tel mjög brýnt að það komi fram hér.

Hvað varðar 5. gr. þá er ljóst, eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna, að það er til mikilla bóta að hægt sé að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi. Ber að fagna því að svo sé gert. Að auki er hér lagt til að landeiganda eða framkvæmdaraðila sé heimilt að gera tillögu til sveitarstjórna að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Gunnars Birgissonar að auðvitað fylgir því töluverður kostnaður að auglýsa breytingar á deiliskipulagi og vinna þær. Ég hygg þó að það verði að skoða þetta mál betur við heildarendurskoðun laganna því að það má heldur ekki vera þannig að hægt sé að varpa þessum kostnaði eða að sveitarfélögin geti varpað þessum kostnaði yfir á þegnana. Það þarf líka að horfa á það frá þeim sjónarhóli.

Herra forseti. Ég hef komið athugasemdum mínum að við þessa umræðu. Ég segi enn og aftur: Ég treysti á að heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga hefjist snemma á nýju ári og nýrri öld. Ég veit að hv. umhvn. verður ekki skotaskuld að leggja á sig þá vinnu sem þarf til þess að sú endurskoðun verði góð og til bóta enda er samhent nefnd þar á ferðinni, herra forseti.