Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:52:23 (3409)

2000-12-14 15:52:23# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú hafa þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað farið yfir þetta mál. Ég get því stytt mér leið í því að í sjálfu sér er ekki ágreiningur í nefndinni um afgreiðslu á þeim atriðum sem koma fram í málinu núna. Ég tel samt ástæðu til að taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á undirbúning málsins.

Ég skil aftur á móti vel að hér skuli hafa birst mál af þessu tagi til þess að bjarga mönnum úr þeirri klípu sem þeir hafa verið í við afgreiðslu skipulagsmála. Það virðist ekki hafa tekist allt of vel til með þessi lög á sínum tíma. Þeim var breytt í fyrra og samt sem áður voru menn í þessum vanda. Við erum líka of stutt komin með skipulagsmál í landinu í heild sem veldur ákveðnum vanda. Það mun taka nokkur ár að koma þessum hlutum í lag en samkvæmt þeim upplýsingum sem skipulagsstjóri lét nefndina fá um hvernig a.m.k. hann telur að þau muni ganga fyrir sig á næstu árum þá stendur þetta nú til bóta allt saman. Því ber að fagna.

Það var náttúrlega alveg greinilegt að ef menn hefðu nú ætlað sér að taka á öllum þeim atriðum sem voru í frv. í upphafi á þeim skamma tíma sem nefndinni var ætlað að fást við málið þá hefði nú ekki orðið merkilegur bragur á því. Nefndin varð sammála um að fella út úr frv. ákveðna hluti sem þurfa meiri og verulega meiri umfjöllun til þess að menn lendi þar ekki í einhverjum slysum.

Kannski er ástæða til að bæta því við að ég er sammála því að það fyrirkomulag sem tekið er upp í sambandi við fjármögnun á Skipulagsstofnun er betra með þessu lagi en var fyrir. Ég tek undir það sem hv. þingmenn hafa sagt hér um að þessi endurskoðun á lögunum í heild fari sem fyrst af stað. Ég legg áherslu á að nefndin fái síðan gott tækifæri til að fást við málið því að það eru mörg atriði sem þarna eru inni og ég vil nú koma að því sem hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi hér áðan, þ.e. kostnað sveitarfélaganna.

Ég tel ástæðu til þess að farið verði sem allra fyrst yfir það og það niðurgreiðslufyrirkomulag sem er nú í gildi. Ég er ekki á móti því að kostnaði sé einhvern veginn jafnað út milli sveitarfélaga. Það er nokkuð sem á að skoða. En ég er á móti aðferðum sem eru ekki ljósar. Það kom t.d. í ljós þegar spurt var á fundi nefndarinnar --- ég spurði um það --- hvort menn hefðu um það upplýsingar hvernig þessi kostnaður hefði lagst á sveitarfélögin, að þær upplýsingar eru ekki til. Auðvitað þarf það að liggja fyrir hvaðan menn eru að taka peninga og hvert menn eru að flytja þá.

Hins vegar er alveg ljóst að þau tíu sveitarfélög sem fá núna helminginn af skipulagsgjaldi greiddan en annast skipulagsvinnu sína að fullu sjálf eru að borga helminginn af skipulagsgjaldinu inn án þess að fá nokkurn hlut fyrir það. Það er fyrirkomulag sem er ekki viðunandi. Þetta er að sínu leyti rökstuðningur fyrir því að þessi endurskoðun fari sem allra fyrst fram.

Ég vil bæta við þessa gagnrýni um undirbúning mála. Mér finnst þetta ekki einleikið. Ég held að hæstv. umhvrh. og ráðuneyti hans þurfi að fara yfir það að við höfum verið að fjalla um á undanförnum dögum um fleiri mál en þetta. Ég nefni t.d. lögin um matvæli sem voru afgreidd hér. Þar kemur greinilega á daginn að ekki liggur fyrir nein stefnumörkun um aðalatriði málsins í 1. gr. Það liggur ekkert fyrir hvað t.d. eigi að vera í reglugerð ráðherra, hve langt eigi að ganga í því að krefjast þess að aðilar sem vinna í matvælaiðnaði fari á námskeið. Það er bara beðið um heimild til að setja reglugerð og ekkert meira er um það og enginn veit hvað á að ganga langt. Þetta er ekki nógu góður undirbúningur.

Sama er með landmælingar og kortagerð. Þar kom greinilega fram að engin gagnapólitík er til frá hendi ráðuneytisins hvernig eigi að afhenda gögn eða hvað þau eigi að kosta. Ekki liggur fyrir hver viljinn er. Það vantar undirbúning. Þessi mál hafa ekki verið undirbúin nægilega vel og full ástæða er til þess að koma því á framfæri og það var aðalerindi mitt hérna. Ég er samþykkur málinu eins og það liggur fyrir núna. Ég tel að nefndin hefði þurft lengri tíma til að vinna málið. En ég mun styðja það. Ég hvet til þess og endurtek það að þessi endurskoðun fari sem fyrst fram. En erindi mitt hingað upp er fyrst og fremst að gagnrýna undirbúning þessara mála og beina því frá mér a.m.k. til hæstv. umhvrh. og ráðuneytis hans að hann standi betur að málum en hefur verið gert í þessum tilfellum