Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:58:57 (3410)

2000-12-14 15:58:57# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, Frsm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég vil að það komi fram að það var enginn meiri eða minni hluti. Öll nefndin stóð að áliti umhvn. í þessu máli þannig að eindrægni var mikil og góður samhugur í nefndinni. Ég þakka kærlega fyrir það og fagna því að náðst hafi samstaða um þetta mál þó ekki sé það stórt.

Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum að ítreka að 3. gr. og 8. gr. um heimildir ráðherra til að víkja frá skipulagsreglugerð eða byggingarreglugerð eiga við í algjörum undantekningartilvikum þar sem um er að ræða óveruleg frávik og þeir sem að málinu koma eru sammála um að þetta sé í lagi. Auðvitað mun tíminn svo leiða í ljós hvort nokkur tilhneiging verði til þess að misnota slík ákvæði. Þá er það ekki óþekkt að slík ákvæði hafi verið þrengd. Við höfum séð það í tilvikum eins og varðandi lög um mat á umhverfisáhrifum þar sem slíkar heimildir voru þrengdar verulega.

[16:00]

Arkitektar sendu inn sérstakt álit eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á. Ég hlustaði á gagnrýni þeirra en þar sem áhyggjur þeirra sneru að lagagreinum sem ekki voru til skoðunar hjá nefndinni þá áleit ég að þau atriði kæmu til sérstakrar skoðunar þegar heildarendurskoðun lagaumhverfisins færi fram, þá mætti taka mál þeirra sérstaklega til skoðunar. Ég vona að það hafi komist til skila og menn sætti sig við það. Kúvending í svona máli gæti einfaldlega þýtt að ekkert af þessu færi í gegn. Eins og komið hefur fram hjá flestöllum hv. þm. er þetta frv. mjög til bóta og menn vilja að málið komist í gegn.

Heildarendurskoðunin, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og fleiri töluðu um, er að sjálfsögðu í höndum ráðherra. Hún ræður alla vega hraðanum á endurskoðuninni og skipar fulltrúa í nefndina. Ég vona að sú nefnd verði skipuð sem fyrst og vil a.m.k. leggja hart að hæstv. ráðherra að hún skipi þessa nefnd sem fyrst þannig að frumvarpsdrög geti legið fyrir á haustþingi.

Varðandi það að undirbúningur hafi verið ónógur, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, þá er það oft svo að ef fyrirvarinn er stuttur þá vill koma fyrir að umsagnargjafar eru ekki klárir á tímasetningunni og þegar þingi er að ljúka kemur fyrir að umsagnir berast eftir að umsóknartíminn er útrunninn. Þannig var í þessu tilfelli, t.d. barst umsögn í dag en umsóknarfresturinn rann út 11. des. Við erum komin tvo daga fram yfir þann frest. Gera má ráð fyrir því umsögnin hefði getað borist í gær ef menn hefðu tekið eftir því hver fresturinn var. Ég ætla ekki að kenna því um að undirbúningur hafi verið ónógur en hann var náttúrlega skammur.

Varðandi reglugerðirnar og það sem fylgir svona frv. oftast nær, þ.e. reglugerðir frá ráðherra, þá er ég þeirrar skoðunar að reglugerðir eigi ávallt að liggja fyrir þegar lagafrumvörp eru samþykkt þannig að menn sjái líka hvað ráðherrann muni leggja áherslu á eftir að frv. er orðið að lögum miðað við þær breytingar sem á því eru gerðar. Við setningu laganna um mat á umhverfisáhrifum kröfðumst við þess af umhvrn. að fá beinagrind af reglugerð. Hún var fylgiskjal eða eitt af þeim skjölum sem bárust nefndinni við vinnslu málsins á síðustu stigum. Þetta er hægt og mér finnst mjög eðlilegt að þingnefndir fái að sjá drög að reglugerðum og hugmyndir ráðherranna um breytingar á reglugerðum með tilliti til breytinga á lögunum. Mér finnst að umhvn. eigi að tíðka það að krefjast slíkra reglugerðabreytinga fyrir fram þannig að ekkert sé á huldu með það. Ég er sammála því að svona mál eigi að vera gegnsæ og öllum ljós.