Útlendingar

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 16:35:42 (3412)

2000-12-14 16:35:42# 126. lþ. 49.18 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem í andsvar til að lýsa ánægju minni með að þetta frv. til laga um útlendinga sé komið á dagskrá þingsins og til umræðu. Mér hefði einhvern tíma þótt fráleitt að eiga von á því að taka slíkt mál og slíkan lagabálk til umræðu daginn áður en fyrirhuguð eru þingslit fyrir jól samkvæmt starfsáætlun, hvað þá heldur að ég stæði hér og væri að fagna því. En eins og háttar var hér til umræðu fyrir viku frv. til laga um breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum. Þar var um að ræða eitt ákvæði varðandi hælisleitandi flóttamenn og ég gagnrýndi það harðlega að við værum á svo skömmum tíma að lögfesta slíkt ákvæði eitt og sér út úr þeim lögum sem væri svo brýnt að setja. Þess vegna er ég afskaplega ánægð með að nú skuli fara fram umræða um heildarlöggjöf í málefnum útlendinga vegna þess að það er mín skoðun, og hún hefur komið fram áður, að við getum ekki annað en sett lög um útlendinga, flóttamenn, hælisleitandi flóttamenn, erlent vinnuafl og alla þá sem kjósa að koma hingað og búa með okkur og vera með okkur í að skapa hér samfélag.

Ég lít svo á að þetta frv. sé efni í þá löggjöf og það er, virðulegi forseti, afskaplega mikilvægt að allshn. fari vel yfir þessa þætti, ekki síst þá sem ég hef oftast gert að umtalsefni, þ.e. hælisleitandi flóttamenn, og að allshn. tryggi að þau atriði sem mannréttindasamtök hérlendis hafa hingað til gagnrýnt í löggjöf okkar verði leiðrétt nú með þeim lögum sem verða til í framhaldi af þessu frv.