Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 10:53:05 (3417)

2000-12-15 10:53:05# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og ég skrifum undir málið með fyrirvara. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur greint frá þeim umræðum sem við áttum í nefndinni um þessi mál.

Hér er um mjög mikilvægt og merkilegt mál að ræða. Við höfðum gagnrýnt að aðeins er um að ræða 12% þeirra sem greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð sem fá þarna ákveðið fé. En málið er afar þarft og er mikilvægt að koma starfsmenntunarmálum og slíku í betra horf.

Eins og greint var frá ræddum við um stöðu bankamanna, fyrst og fremst almennt. Friðbjörn Traustason frá Sambandi ísl. bankamanna kom á fund nefndarinnar. Bankamenn fá hins vegar fé úr starfsgreinasjóði. Varðandi það mál, sem er síðar á dagskránni, um sameininguna, verður kannski enn brýnna að taka á því máli.

Við sáum ekki ástæðu til að vera gegn þessu frv. Það hefur verið samið um það. Það voru aðferðirnar. Við ræddum það við 1. umr. að ekki er gott að vera að sækja í sjóði sem hafa ákveðin markmið en það er tekið skýrt fram í nál. að einungis er um tímabundið átak að ræða og þess vegna samþykkjum við þetta frv.