Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 10:54:55 (3418)

2000-12-15 10:54:55# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[10:54]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um að taka upp þriggja ára átak í fræðslumálum ófaglærðra sem yrði greitt með 200 millj. kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við þetta hef ég tvennt að athuga, herra forseti.

Í fyrsta lagi að einhverjir aðilar, lítill hluti vinnumarkaðarins, geti í samningum ráðstafað fé úr þessum sameiginlega sjóði sem allir launþegar greiða til eða atvinnurekendur vegna þeirra. Þetta er fyrsta athugasemdin sem ég hef við þetta að gera.

Önnur athugasemdin er uppruni málsins og frumkvæði að málinu. Það kemur frá aðilum vinnumarkaðarins, fer svo til framkvæmdarvaldsins sem tekur það hrátt og keyrir í gegn og síðan kemur það til Alþingis til stimplunar. Þetta hef ég bent á mörgum sinnum að Alþingi fær svona mál frá aðilum vinnumarkaðarins til þess að afgreiða.

En þetta er gott mál og það er meira að segja rökrétt. Það er rökrétt að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði fyrir endurmenntun sem hjálpar fólki að skipta um störf vegna þess að það minnkar atvinnuleysið og er til hagsbóta fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Af þeirri ástæðu styð ég málið og líka vegna þess að þetta er tímabundið og einungis til þriggja ára.