Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 10:56:38 (3419)

2000-12-15 10:56:38# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég er sammála þeim fyrirvara sem fulltrúar minni hlutans í félmn. hafa sett fram. Auðvitað er það svo að í þessu stóra verkefni sem starfsmenntun í atvinnulífinu er á að vera sérstakt prógramm í gangi sem tekur mið af ástandi á vinnumarkaði, sem tekur mið af breytingum og tekur mið af þeirri þróun sem viðkomandi stjórnvöld vilja stuðla að. Því er ekki til að dreifa varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu hjá þessari ríkisstjórn. Ég get einnig tekið undir það að þegar gert er átak vegna samkomulags á vinnumarkaði þá hefði að sjálfsögðu átt að koma sérstakt framlag til þess úr ríkissjóði. Að sjálfsögðu er ríkissjóður að stuðla að samningum með því að undirrita átak, þá á að greiða sérstakt framlag til þess og á engan hátt að rýra þá fjármuni sem eru hugsanlegir til almennrar starfsmenntunar í atvinnulífinu og til framlags til allra þeirra stétta eða einstaklinga sem um það sækja. Þetta er mikið grundvallaratriði sem mér finnst koma fram í þeim fyrirvara sem hér er.

Það kemur líka fram í þessu stutta nál. að það eigi að fá óháðan aðila til að leggja mat á árangur verkefnisins og hvaða ávinningi það hefði skilað atvinnulífinu. Ég er líka sammála þessu. Ég held að þetta sé mjög gott vegna þess að alls staðar þar sem við erum að setja fjármagn til að byggja upp er mikilvægt að vita hvernig það fjármagn skilar sér. Við vitum árangurinn af því til þess að gera enn betur og nýta fjármagn á besta hátt, ekki bara í atvinnulífinu eins og við hugsum oft um það, heldur ekki síst fyrir einstaklinga sem eru að breyta um farveg og það sé alveg ljóst að þetta fjármagn sé að byggja upp einstaklinga í atvinnulífinu til nýrrar þátttöku og nýrrar atvinnusóknar vegna þess að með aukinni starfsmenntun í atvinnulífinu er verið að bregðast við því, annaðhvort að fólk er ófaglært og býr við óöryggi á vinnumarkaði, eða að verið er að bregðast við því að störf eru algerlega að úreldast og það fólk sem hefur unnið þau eygir ekki möguleika á nýjum störfum nema mennta sig til nýrra starfa. Um það snýst hugmyndafræðin um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er að koma málum í betra horf, byggja upp einstaklinginn til nýrrar þátttöku.

Mér hefur fundist, herra forseti, að þessu máli sé of lítill gaumur gefinn. Ég upplifi það sem fullkomið áhugaleysi hjá ríkjandi stjórnvöldum að taka á í þessum málum. Ég minnti á það við 1. umr. málsins að auðvitað verður núna að setja sérstakt fjármagn til einhvers átaks af því að það var samkomulagsatriði í kjarasamningum en ekki af því að þetta væri eitthvert metnaðarfullt átak sem væri sprottið af hugmyndum og löngun ríkisstjórnarinnar til að gera betur. Það er mikið umhugsunarefni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefnir að Alþingi fái mál til stimplunar frá verkalýðssamtökunum. Þessu er ég fullkomlega ósammála. Alþingi er enn einu sinni að fá mál til afgreiðslu frá ríkisstjórninni af því að ríkisstjórnin vildi fremur gera einhvern félagslegan samning til að leysa kjaradeilur eða koma á kjarasamningum en að vinnumarkaðurinn semdi um krónutölur sem e.t.v. yki á þenslu. Þetta snýst alltaf um það. Afskipti ríkisins hafa hingað til snúist um að reyna að stuðla að því að í kjarasamningum fælist minni krónutöluhækkun en ella með því að koma til móts við verkalýðshreyfinguna með ákvæðum af félagslegum toga, annaðhvort varðandi húsnæðismál eða varðandi umbótamál önnur, fæðingarorlofsmál, orlofsréttindi eða hvað það hefur verið á hverjum tíma og nú um starfsmenntun og átak í málum ófaglærðra.

Þegar þessum málum hefur svo lítið verið sinnt sem raun ber vitni þá er hægt að segja: Guði sé lof fyrir að í kjarasamningum er tekið á þessum málum og að ríkisstjórnin er að bera inn mál sem er mjög þýðingarmikið og stórt samfélagsmál og afskaplega áríðandi þáttur í menntaumhverfi okkar. Ég brýni hæstv. félmrh. til að gera það að metnaðarfyllsta verkefni sínu að taka á í þessum málum, ekki eingöngu með þessu þriggja ára átaki heldur almennt að fara í lögin, skoða og láta skoða það mjög vel hvar þurfi að taka á í þessum málum annars staðar en hjá ófaglærðum og beina fjármagni inn á þær brautir. Þetta tel ég vera eitt brýnsta málið í dag.

Ég hef stundum sagt að félmrh. hefur verið að taka á málum sem mér hafa hugnast mjög vel og minni ég þar á Barnahúsið, næstum sáluga, og ég hef verið alger bandamaður hæstv. félmrh. í því að það hús og starfsemin þar yrði ekki slegin af, með dæmalausum vinnubrögðum í ríkisstjórninni. Ég brýni hæstv. félmrh. með að vera metnaðarfullur varðandi þessi mál og starfsmenntamálin og endurmenntun þess fólks sem er á vinnumarkaði og þarf á endurmenntun að halda til nýrra starfa og nýrra möguleika. Þetta er það sem þarf að gera og mun ég styðja hæstv. félmrh. svo sem mér er unnt í því verkefni.