Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:03:21 (3420)

2000-12-15 11:03:21# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að frumkvæði að þessari lagasetningu kom ekki frá Alþingi. Það kom heldur ekki frá stjórnarandstöðunni. Það kom heldur ekki frá ríkisstjórn. Það kom frá aðilum vinnumarkaðarins. Þeir höfðu frumkvæði að þessari lagasetningu sem og margri annarri, eins og hv. þm. nefndi, í skattamálum, lífeyrismálum o.s.frv.

Þetta er ágætismál og ekki hægt að hafa á móti slíkum lögum í sjálfu sér nema að því leyti að þau túlka ekki vilja allra landsmanna. Þeir sem vinna að gerð kjarasamninga eru ekki kosnir af öllum landsmönnum. Það er ekki endilega víst að hagsmunir þeirra varðandi mótun á velferðarkerfinu séu hagsmunir þjóðarinnar sem hefur kosið okkur þingmenn til að gæta hagsmuna sinna. Þetta hef ég verið að gagnrýna. Við hv. þm. eigum að hafa frumkvæði að þessari lagasetningu en ekki litlir hópar úti í bæ, hagsmunaaðilar sem hafa jafnvel ekki sömu hagsmuni og þeir sem þeir tala fyrir. Þetta hef ég verið að gagnrýna.

Ég spyr hv. þm.: Hvert er eiginlega hlutverk Alþingis í að móta velferðarkerfið? Stjórnarandstaðan kemur ekki með svona hugmyndir sem eru samþykktar. Ríkisstjórnin gerir það ekki. Það eru aðilar vinnumarkaðarins sem koma með stærstu mál varðandi skattamál og lífeyrismál. Eigum við þá ekki að taka upp það kerfi að þeir verði kosnir af þjóðinni en ekki Alþingi?