Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:09:01 (3423)

2000-12-15 11:09:01# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þessa umræðu hv. þm. Ég ætla bara að svara henni með þessum orðum:

Lýðræði á Alþingi Íslendinga felst í meirihlutavaldi tveggja flokka. Við fáum að heyra það hverju sinni sem þessir tveir flokkar hafa ákveðið að koma fram máli: Við höfum meirihlutavaldið og það er okkar að ná málum okkar fram í skjóli þess meirihlutavalds.

Það er annar bragur á lýðræðinu í sumum öðrum löndum. Tökum Noreg sem dæmi. Þar er hefð fyrir minnihlutastjórnum. Hvernig gengur það fyrir sig? Þar er reynt að ná víðtækri samstöðu um öll stærri mál og allar meiri háttar breytingar. Í Danmörku eru meirihlutastjórnir en samt hefð fyrir því að reyna að ná víðtækri samstöðu um öll meiri háttar mál. Mér er sagt að þeim mundi ekki detta í hug að reyna að þjösna t.d. breytingum á skólalöggjöfinni í gegnum þingið öðruvísi en að ná stuðningi 80% þingmanna við hana. Það væri fráleitt af því að það byði upp á óstöðugleika í málaflokknum og að við næstu stjórnarskipti yrði kerfinu breytt aftur.

Þannig er unnið með lýðræðið í öðrum löndum. En hvernig er lýðræðið eins og við þekkjum það? Lýðræðið hér er að frv. koma frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, eru keyrð í gegn með meirihlutavilja tveggja flokka en ekki reynt að ná víðtækri sátt svo lögin lifi til framtíðar.