Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:25:24 (3427)

2000-12-15 11:25:24# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:25]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hlutirnir gerast hratt í þinginu á þessum síðustu dögum en hér er til umræðu frv. til laga um útlendinga. Hæstv. dómsmrh. mælti fyrir frv. í gær og fór yfir mörg atriði. Það er afar fróðlegt að skoða þetta frv., svo ekki sé meira sagt, og gaman að setja upp mismunandi gleraugu þegar maður skoðar það. Ef sett eru upp gleraugu framkvæmdarvaldsins hljóta þeir að vera mjög ánægðir með frv. Þingið getur afar lítið fylgst með þessu frv. því það er hvorki meira eða minna en 58 greinar og er gert ráð fyrir a.m.k. 32 reglugerðum. Frv. er því á engan hátt gegnsætt. Það er mikið vald í þessu frv., það er mikið af nálaraugum, það er mikið eftirlit með útlendingum og mörg skilyrði. Ég segi sem svo að kannski er best að fara ekki mikið frá landinu eða fá fólk frá Schengen-svæðinu hingað. Mér finnst fólki vera gert mjög erfitt fyrir. Það er mjög margt sem á eftir að ræða í nefndinni og þetta frv. á vafalaust eftir að vera í nefndinni fram á vorið og þar á náttúrlega eftir að fara fram mjög mikil vinna.

Hins vegar vil ég að sjálfsögðu fagna því að komið er fram nýtt frv. um útlendinga því að lögin, sem við höfum nú í gildi, eru eiginlega orðin eins og götótt dula. Þau eru gömul og um margt eiginlega ekki gott vinnutæki fyrir einn né neinn. Það er ýmislegt í þessu frv. sem við munum skoða áfram í nefndinni og mig langaði aðeins að hlaupa á nokkrum þáttum sem ég rak augun í.

Fyrir það fyrsta eru það allar þessar reglugerðir. Í sumum greinum er gert ráð fyrir tveimur ef ekki þremur reglugerðum sem gerir það að verkum að dómsmrh. hefur mjög mikið vald í málinu en það er líka mjög mikið framsal á valdi. Þegar svona mikið er af reglugerðum er í rauninni erfitt að átta sig á hvernig lögin eiga að virka. Það verður mikilvægt fyrir nefndina að fá fram hugmyndir bæði með þeim embættismönnum, öllum samtökum og öðrum þegar við förum yfir það hvernig þessir hlutir eiga að líta út. Það er mjög mikilvægt að svona frv. sé svolítið gegnsætt þannig að fólk átti sig strax á rétti sínum, hvernig það standi o.s.frv. Það verður því mjög margt sem nefndin þarf að skoða.

Ég ætla aðeins að hlaupa yfir nokkur atriði sem ég hef talið þörf á að skoða sérstaklega og sem mér hefur fundist líka afskaplega sérkennileg. Ef við byrjum t.d. á 6. gr., um vegabréfaáritanir, er þar kveðið á um að dómsmrh. setji reglur. Ég held að það þurfi að setja ákveðin skilyrði í lögin eða fá vitneskju um hvernig þessar reglur eigi að líta út. Jafnframt er í 6. gr. talað um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Það finnst mér óeðlilegt framsal. Mér finnst að þessir hlutir eigi að vera í utanrrn. eins og þeir hafa verið í sendiráðum og í raun á vegum utanríkisþjónustunnar. Þetta er kannski bara hlutur sem við skoðum í nefndinni áfram.

Ef við tökum 10. gr., sem er um útgáfu dvalarleyfis, þá finnst mér fólki vera gert mjög erfitt þegar talað er um að það skuli hafa dvalarleyfi áður en til landsins er komið því að þetta getur í sumum tilfellum verið mjög erfitt. Talað er um sanngirnisástæður, að það sé í rauninni sú undanþága. Þá er einnig spurning hvort við ættum ekki að reyna að útfæra þessar sanngirnisástæður. Ég held að það væri líka mjög verðugt verkefni fyrir nefndina að ræða það. Inni í þessu mættu hins vegar vera ákveðnar reglur en svo er ekki.

[11:30]

Þá hefur einnig verið spurt af hverju við höfum ekki allan pakkann inni þannig að allt sé á einum stað og þá erum við að tala um dvalarleyfi, búsetuleyfi og atvinnuleyfi. Þannig fengjum við heildstæða löggjöf sem hlýtur að vera markmiðið með því að koma fram með ný og endurskoðuð lög sem verði einnig skilvirkari.

13. gr. frv. fjallar um dvalarleyfi. Mér fyndist að inn í 14. gr. um endurnýjun mætti líka setja inn mannúðarsjónarmiðin. Þau eru þar ekki en spurning hvort þau ættu ekki að vera í 14. gr. Við 1. umr. frv. skoðar maður það sem manni finnst að betur megi fara og hvað mætti bætast við og mér finnst mannúðarsjónarmiðin vera eitt af því sem nefndin eigi skoða þar.

Í 15. gr. finnst mér námskeið í íslensku afar mikilvæg. Þar er gert ráð fyrir ákveðinni reglugerð. Ég held að það þurfi líka að ræða um hvaða innihald við erum að tala, hvaða undanþágur. Auðvitað eru þær líka til staðar þannig að það sé líka mjög læsilegt því að þessi lög verða líka tæki fyrir þá útlendinga sem koma til landsins. Við megum ekki gleyma því að útlendingar kynna sér fremur lögin en þær reglugerðir sem eru í gildi þannig að það er spurning að skoða reglurnar um námskeiðin.

Mig langar að benda á að í 17. gr. er gríðarlega mikil tilkynningaskylda. Í síðustu mgr. 17 gr. segir, með leyfi forseta:

,,Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem ekki þarf dvalarleyfi skuli tilkynna lögreglunni um heimili sitt hér á landi og um vinnu sína eða starf.``

Áður hafa komið ábendingar um af hverju ekki sé nóg að fólk tilkynni Hagstofunni breytingar og öðrum til þess bærum aðilum, af hverju þurfi eitthvert sérstakt eftirlit á alla þessa þætti. Mér finnst að við eigum líka að skoða hvort ekki sé eðlilegt að fólk gangi inn í þau kerfi sem við teljum okkur sjálfum gagnast.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði athugasemd við 18. gr. frv., g-liðinn þar sem segir ef ,,hann samkvæmt mati þar til bærs heilbrigðisstarfsmanns er augljóslega haldinn alvarlegum geðtruflunum,`` af hverju viðkomandi má ekki koma til landsins. Þetta er náttúrlega mjög matskennt og er spurning hvaða sjúkdóma við viljum telja upp. Ég er auðvitað ekki að tala um þá aðila sem eru þekktir að einhverju, við erum með á skrá o.s.frv. Mér finnst að við þurfum að ræða hvernig þessi grein virkar.

25. gr. fjallar um leiðbeiningarskyldu og mig langar að ræða aðeins almennt um lögfræðiaðstoð við útlendinga. Ég held að við hefðum átt að velja þá leið sem er verið að breyta á Norðurlöndunum og sum lög þar eru mun framsæknari en önnur. Ég á lista um hvernig þessum málum er háttað varðandi lögfræðistuðning á Norðurlöndunum. Það er mjög mikilvægt að það sé ekki á kostnað viðkomandi heldur séu það ákveðin réttindi fyrir útlending eða flóttamann að fá talsmann eða lögfræðing ef upp koma einhver vandræði hjá honum. Það er afar mikilvægt þannig að við virðum öll mannréttindi. Mér finnst því að við eigum að bera saman hvað hefur verið að gerast í annarri löggjöf. Sumir fá lögfræðiaðstoð algerlega fría þannig að fólki er fenginn lögfræðingur, bæði í tengslum við mannréttindasamtök og aðra. Það er afar mikilvægt að fólk hafi þann rétt. Það er ekki það fyrsta sem útlendingar gera þó að þeir hafi verið hér í smátíma að reyna að finna sér lögfræðing. Það er því mjög mikilvægt að það sé réttur sem fólk hefur. Það væri mjög gaman fyrir nefndina að skoða samanburðinn.

Í 29. gr. segir: ,,Í þágu máls má taka ljósmyndir og fingraför og gera rannsókn á erfðaefni af útlendingi sem ...`` --- og síðan koma ákvæðin, t.d. má taka DNA-sýni af fólki ef því hefur verið synjað um hæli. Hvert erum við að fara? Ég bið virðulegan þingheim að íhuga hvort við erum ekki að ganga fulllangt í því að við getum hreinlega tekið DNA-sýni ef viðkomandi er synjað um hæli. Erum við ekki að ganga einum of langt í einhverjum rannsóknum? Allt verður þetta að þjóna ákveðnum tilgangi því ef við erum með fingraför og ljósmyndir og annað til að bera saman í safni, eigum við að fara að koma upp einhverjum DNA-banka hér með alheimsglæpamenn eða hvað? Mér finnst að við eigum að fara aðeins varlega, við eigum að draga andann djúpt.

Mig langar að halda aðeins áfram með 29. gr., þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Gæsla má ekki standa lengur en í 12 vikur samanlagt nema sérstaklega standi á.``

Mér finnst þetta afskaplega langur tími, 12 vikur eða þrír mánuðir. Mér finnst það mjög hægfara rannsóknakerfi ef við getum haldið útlendingi í fangelsi í allt að þrjá mánuði. Ég vil að við íhugum þetta. Það verður mjög gaman og fróðlegt að fá umsagnir frá ýmsum samtökum og kannski líka um þennan þátt þannig að ég held að það sé afar mikilvægt.

34. gr. er um réttaraðstoð þar sem dómari skipar útlendingi talsmann. Það er afar gott og ekki vanþörf á og auðvitað er margt til mikilla bóta.

Svona má fara yfir þetta frv. og nefndin mun að sjálfsögðu gera það en það sem ég vil líka gera örlítið að umtalsefni og held að sé til íhugunar fyrir okkur í allshn. og fyrir þingheim er hvað varðar vernd gegn ofsóknum. Það er ekki í frv. sem ég veit að hefur verið ákall um að færa inn í lög og það er vernd vegna barna. Alls staðar eru komin sérákvæði um vernd barna. Það tel ég mjög eðlilegt að við tökum upp. Við þurfum því að hafa það sem sérstaka klásúlu hér inni þannig að það sé skýrt.

Einnig er talað um vernd kvenna vegna félagsleg hlutverks þeirra sem þarf líka að setja um erlendar konur. Það er líka í öðrum lögum og við þurfum skoða þann samanburð líka. Við þurfum líka að setja inn vernd gagnvart ofsóknum ef við tökum mál eins og Salman Rushdie. Ofsóknir eru á svo marga vegu. Mér finnst að við eigum að skoða það og íhuga vel og vandlega hvernig við getum tryggt þessa vernd, bæði gagnvart trúarofsóknum og öðru. Ég held að við eigum að hafa það inni í löggjöf okkar.

Ég held að ég hafi þetta ekki meira að sinni en veit að nefndin mun skoða þessi mál afar vel og kalla marga til. Það verður mikil og skemmtileg vinna fram undan. Hér er ýmislegt sem mér finnst þurfa að laga strax en ýmislegt er að sjálfsögðu til bóta þó að ég hafi ekki tíundað það.