Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:13:28 (3433)

2000-12-15 12:13:28# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem upp við 1. umr. þessa máls til að benda á nokkur atriði sem ég tel að hv. allshn. þurfi að taka til sérstakrar athugunar í umfjöllun sinni um þetta viðamikla frv. Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. sem hér hafa tekið til máls er um grundvallarlagasetningu að ræða, mjög viðamikla sem mun hafa auðvitað mikil áhrif um ókomin ár.

Það er kannski óþarfi að fara út í umræðu um hvers vegna það hafi tekið svona langan tíma að endurskoða þessi lög. Gömlu lögin eru frá 1965 eins og þingheimi er fullkunnugt um. Nú er hin endurskoðaða útgáfa komin, frv. til laga um útlendinga. Það heitir reyndar ekki lengur frv. til laga um eftirlit með útlendingum og verður það að teljast til bóta en kannski ætti það að heita frv. til laga um réttindi útlendinga.

Ég vil eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir benda á það að víða í frv. er gert ráð fyrir reglugerðarsetningu eða því að hæstv. dómsmrh. setji nánari reglur um hvernig þessum lögum skuli framfylgt. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi sem mest að vera í lögunum sjálfum, þau eigi að vera skýr og þau eigi að vera einföld og sem minnst í höndum framkvæmdarvaldsins um nánari útfærslu þeirra.

[12:15]

Í 15. gr. frv. er fjallað um svokallað búsetuleyfi. Ég vænti þess að hv. allshn. muni fjalla vandlega um þessa grein og til hvers svonefnt búsetuleyfi sé, hvað það þýði í raun. Mér hefur verið sagt að í lagamáli sé búsetuleyfi leyfi til að sitja í óskiptu búi. Ég læt það liggja á milli hluta.

Í 15. gr. er einnig kveðið á um að dómsmrh. geti sett reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga þar sem kveðið yrði á um lengd námskeiðs, lágmarkstíma, vottorð staðfestingar þátttöku o.s.frv. Mér finnst óheppilegt að nálgast þetta mál, þ.e. íslenskunám útlendinga, með þessum hætti. Hvers vegna á að skylda þá sem hafa búsetuleyfi til að læra íslensku? Hvað með maka íslenskra ríkisborgara? Hvað með EES-borgara, ef út í það er farið? Ég er ekki viss um að þetta gangi upp. Auk þess er ég þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum sé rangt að skylda fólk til að læra íslensku. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hvetja fólk til að læra íslensku. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera það ódýrt og auðvelda fólki að læra íslensku. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sjá til að atvinnurekendur sjái launþegum sínum fyrir þjónustu á þessu sviði. Mér finnst í hæsta máta óheppilegt að skylda fólk til að læra tungumálið. Ég vænti þess að hv. allshn. fjalli ítarlega um þetta ákvæði frv.

Skilgreining á flóttamönnum í þessu frv. er samkvæmt flóttamannasamningnum. Í 44. gr. segir:

,,Flóttamaður samkvæmt lögunum telst vera útlendingur sem fellur undir ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951.``

Flóttamannasamningurinn er barn síns tíma ef þannig má að orði komast. Hann er frá upphafi 6. áratugarins. Margt hefur breyst í veröldinni undanfarin 50 ár. Margoft hefur verið bent á það á alþjóðlegum vettvangi að þessi skilgreining ein og sér, þó að hún sé grundvöllurinn, nægi ekki af því að vernda þurfi fólk gegn ýmsu öðru. M.a. þarf að kveða á um sérstaka vernd kvenna og sérstaka vernd barna. Þeim fer fjölgandi flóttabörnunum á jörðinni sem eru ekki í umsjón fullorðinna, t.d. munaðarlaus börn í Afríku sem hafa misst foreldra sína vegna alnæmis og lent á vergangi. Ýmsar aðstæður hafa skapast sem gera það að verkum að við verðum að hafa þessa skilgreiningu eins ítarlega og við getum. Það þarf ekki bara að kveða á um vernd gegn ríkisvaldinu heldur einnig því sem á ensku kallast ,,nonstate agents``. Það gætu þess vegna verið skæruliðahópar, aðrir slíkir hópar eða aðilar sem ógna lífi eða lífsskilyrðum fólks. Ég bið hv. allsherjarnefndarmenn að taka þetta til mjög vandlegrar athugunar. Þetta er auðvitað grundvallargrein og ákvæði í þessu frv.

Mér þykir mikilvægt að kveðið sé á um fræðslu til handa þeim sem starfa í þessum geira, í lögreglunni, hjá væntanlegri Útlendingastofnun eða í ráðuneytunum. Allir þeir í stjórnsýslunni sem höndla með málefni útlendinga þurfa að fá mjög ítarlega fræðslu, ekki bara um lögin eða reglurnar heldur líka um aðstæður í þeim löndum sem fólk hefur flúið, um stjórnmálaástand og mannréttindamál. Auðvitað er þetta mjög misjafnt en þetta er hins vegar grundvallaratriði ef við eigum að geta sett okkur í spor flóttamannsins. Við verðum að hafa í huga að lög sem þessi eiga að kveða á um skyldu ríkisins til að aðstoða og vernda þá sem leita hér eftir hæli. Þetta eru, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði við umræðuna, lög um mannréttindi. Lögin eru um hvernig ríkisvaldið verndar flóttamann. Það er mjög mikilvægt að hv. þm. hafi þá sýn á meðferð þessa máls í hv. allshn.

Að lokum, herra forseti, vil ég koma inn á eitt atriði er varðar atvinnurekendur. Við vitum að flestir útlendingar sem hér setjast að um lengri eða skemmri tíma koma hingað til að vinna. Eins og vís maður sagði einu sinni: Við fluttum inn vinnuafl og fengum fólk. Það á jafn vel við á Íslandi í dag og í Þýskalandi fyrir nokkrum áratugum. Það verður að fjalla um þessi mál út frá skyldum og ábyrgð atvinnurekanda. Erlent vinnuafl er ekki skiptimynt í sjóðum íslenskra atvinnurekenda. Þeir hljóta að bera einhverjar skyldur gagnvart launþegum sínum, m.a. hvað varðar uppfræðslu, íslenskunám og annað. Ég hvet hv. allshn. til að taka það til skoðunar hverjar skyldur íslenskra atvinnurekenda gagnvart erlendu vinnuafli skuli vera.

Mér finnst jafnframt að þetta frv. mætti vera jákvæðara, ef þannig má að orði komast. Mér finnst andi þess ekki jákvæður í garð útlendinga. Ég held að tími sé til þess kominn að við gerum okkur grein fyrir því að hvort sem okkur líkar betur eða verr munu þúsundir manna kjósa að setjast að og búa hjá okkur á Íslandi. Við sjálf höfum mörg hver kosið að búa í öðrum löndum um lengri eða skemmri tíma. Það verða engin vandamál leyst með því að reisa háa og mikla varnargarða eða gera fólki sem vill setjast að á Íslandi erfitt fyrir. Auðvitað eru þessi mál mjög vandmeðfarin, ekki síst vegna þess að fjalla þarf um hvert og eitt þeirra mjög vandlega. Það krefst mikillar vinnu og krefst mikils af þeim sem starfa við þennan málaflokk en ég held að okkur væri hollt að gera okkur grein fyrir því að það er affarasælla að hafa þessi lög einföld, skýr og opin, með minni áherslu á eftirlit og meiri áherslu á hversu mikils virði það er fyrir íslenskt samfélag að hér vilji fleiri setjast að en þeir sem fæddir eru á Íslandi.