Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:23:52 (3434)

2000-12-15 12:23:52# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um þetta frv. sem slíkt í heildina. Það er einungis eitt sem ég vil koma að. Mér hefur í gegnum tíðina fundist að þegar rætt hefur verið um útlendinga, sem hingað hafa komið og viljað leita sér hælis en verið vísað frá, þá hafi oft á tíðum verið býsna óljóst hvort málsmeðferð þeirra hafi verið eðlileg, þ.e. hvort það hafi verið eðlileg niðurstaða að vísa þeim úr landi og leita ekki eftir upplýsingum um afdrif þeirra.

Ég bið hv. nefndarmenn að velta fyrir sér hvort ekki eigi í þessum lagabálki að leggja þá skyldu á herðar útlendingaeftirlitinu og utanrrn. að gefa eftir tiltekinn tíma, t.d. tvö ár, skýrslu um afdrif þeirra sem hafa óskað eftir að fá að flytjast til landsins. Ég legg til að upplýsingar um þessa aðila verði geymdar og fylgst með þeim tiltekinn tíma svo að menn viti hvað gerist eftir að þeir fara héðan. Þar með gætum við séð hvort ákvörðunin um að vísa þeim brott hafi í raun verið rétt. Ég held að ef við hefðum slíkar upplýsingar aftur í tímann þá mundu menn, því miður, komast að þeirri niðurstöðu að stundum hefði átt að leyfa mönnum að vera um kyrrt.