Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:38:01 (3436)

2000-12-15 12:38:01# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um málefni útlendinga sem við hófum umræðu um í gær og hefur henni verið fram haldið í dag.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég fagna því eins og ég nefndi í gær að fram skuli vera komið frv. til laga um útlendinga þó að ég hafi hins vegar ýmislegt við það frv. að athuga. Ég nefndi það sérstaklega í gær að mér fyndist valdframsal í frv. vera allt of mikið, sérstaklega í ljósi þess að við erum að fjalla um mannréttindi, við erum að fjalla um hvernig ríkisvaldið tekur á móti útlendingum og hvernig það fer með útlendinga eftir að þeir koma hingað. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar um slíka hluti er fjallað að um það séu skýrar og gegnsæjar reglur. Frv. er því að mínu viti ekki í samræmi við almennt viðurkennd viðmið um að reglur séu gegnsæjar og að menn viti nákvæmlega að hverju er gengið. Þess vegna er dálítið erfitt fyrir Alþingi að afgreiða þetta mál eins og það lítur út núna sökum þess hversu það er í rauninni erfitt fyrir Alþingi að átta sig á því hvað í frv. felst því það á algerlega eftir að fylla út í þennan ramma. Hæstv. ráðherra sem flutti mál sitt áðan staðfesti í rauninni að þetta væri eitt af þeim markmiðum sem að er stefnt með setningu laganna. Það kemur líka fram í greinargerðinni á bls. 20, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Meginreglur allar koma hins vegar fram í frumvarpsgreinunum en reglugerðarheimild varðar þá útfærslu tiltekinna reglna.`` Það er einmitt þetta atriði sem ég gagnrýndi í gær og ég ítreka þá gagnrýni. Ég sé og heyri eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram að það er í raun og veru markmiðið með lögunum, að hafa þetta svona opið. Og ég held að hv. allshn. muni fjalla mjög vandlega um þetta.

Í öðru lagi gagnrýndi ég í gær, virðulegi forseti, að mér finnst skorta heildarstefnumótun í málefnum útlendinga. Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að þetta fjallaði um tiltekna afmarkaða þætti. Það kemur í sjálfu sér fram þegar maður les það en hins vegar skil ég það ekki og átta mig ekki alveg á því hvernig hægt er að móta heildstæða stefnu án þess að þetta sé hluti af henni. Það var það sem ég var að kalla eftir í umræðunni í gær þegar ég talaði m.a. um að reglur skorti um atvinnuleyfi sem ég tel að eigi að vera í frv. Ég tel að það sé þá einfaldlega ráðherra að komast að niðurstöðu, ótiltekinna ráðherra í ríkisstjórninni sem fara með þessi mál, um að reyna að koma þessu undir einn hatt. Ég held að mjög mikilvægt sé að reglur um þessa hluti séu á einum og sama staðnum og ég ítreka það að ég átta mig ekki alveg á því ef sú vinna fer einhvers staðar fram, hvernig hægt er að aðskilja þá vinnu, að móta heildarstefnu í málefnum útlendinga, því regluverki sem hér er ætlunin að setja. Í umræðunni hefur því ekkert í raun og veru komið fram sem breytir þeirri skoðun minni að miklu skynsamlegra og heppilegra væri fyrir alla aðila að þetta væri á einni hendi.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, hefur fátt nýtt komið fram í umræðunni en ég vil þó nefna eitt vegna orða hv. þm. Jónínu Bjartmarz, þar sem hún fór yfir það að ég hefði haft uppi orð í gær sem ekki ættu við rök að styðjast, en flutti síðan nokkurn veginn orðrétt það sem ég sagði og bætti litlu við. Það sem ég sagði var að þegar tilteknir gestir komu á fund allshn. vegna umræðu reyndar um annað mál, mál nr. 284, um eftirlit með útlendingum, þá var það orðað þannig að yrði þetta lögfest yrði þetta þægilegt verkfæri vegna komu útlendinga. Ég held að rétt sé að ég lesi þá grein í því frv. til þess að leiðrétta þetta. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins ...``

Þess vegna orðaði ég það þannig að þetta væri þægilegt verkfæri til að senda útlendinga brott sem hingað kæmu og ég sé ekki í raun og veru, virðulegi forseti, að hv. þm. hafi haft nokkuð með það að gera að koma hér upp til að leiðrétta eitthvað sem áður hafi verið sagt.

Ég tek síðan undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem sagði í ræðu sinni að vissulega væri meðalvegurinn í þessu vandrataður og erfitt væri að finna meðalveginn milli eftirlits ríkisvaldsins eða möguleika ríkisvaldsins á að halda uppi lögum og allsherjarreglu og hins vegar að tryggja að þeir sem hingað kæmu hefðu full réttindi því að þessi vinna og framkvæmd er oft og tíðum dálítið erfið. Hins vegar gagnrýndi ég það og það gerðu fleiri í umræðunni að sá tónn sem væri í frv. væri þess eðlis að allur vafi væri túlkaður eftirlitinu í hag. Það er sá tónn sem ég gerði að umræðuefni í gær og finnst að það megi reyna að vinna bug á honum, ef svo má að orði komast, og ég held að hv. allshn. muni fara mjög vandlega yfir það.

Einnig tel ég, virðulegi forseti, að við megum ekki gleyma því að allar spár aðila á vinnumarkaðnum eru í þá veru að á komandi árum þurfum við að fá hingað mikinn fjölda erlendra einstaklinga til þess að standa undir þeirri atvinnustarfsemi sem hér er og við megum ekki gleyma því að þegar við flytjum inn erlent vinnuafl erum við að fytja inn fólk. Við þurfum að tryggja að það fólk sem hingað kemur njóti allra þeirra réttinda sem hægt er að láta það hafa, og við eigum, virðulegi forseti, að vera í forustu í umræðum og framkvæmd á mannréttindamálum í heiminum og ég held að við getum hæglega orðið það áfram. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að gera þurfi veigamiklar breytingar á þessu frv. til að við getum staðið undir því.