Útlendingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 12:45:13 (3437)

2000-12-15 12:45:13# 126. lþ. 50.11 fundur 344. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[12:45]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lenda í einhverjum þrætum um það hvað ákveðnir gestir á fundi hv. allshn. hafi sagt eða ekki sagt. En þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sér ástæðu til að vísa í orð gests sem kemur á fund allshn. og fjallar um frv. til laga um breytingu á lögum um útlendinga og um leið Dyflinnarsamninginn og efni hans, þá geri ég a.m.k. þá kröfu að hann fari rétt með það sem gesturinn segir. Gesturinn sagði að Dyflinnarsamningurinn væri þægilegt tæki til að starfa eftir og bæði ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vitum að núgildandi lög um eftirlit með útlendingum hefur ekki verið það tæki sem menn hafa þurft á að halda til að starfa eftir. En þessi ákveðni gestur sagði að þetta væri þægilegt tæki til að starfa eftir, hann sagði ekki ,,til að halda útlendingum frá``. Það er það sem ég vildi leiðrétta.