Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:01:22 (3442)

2000-12-15 16:01:22# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Úrskurður samkeppnisráðs um samruna Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hefur nú verið kynntur fulltrúum bankanna. Samkeppnisráð heimilar ekki samruna bankanna og telur hann ganga gegn samkeppnislögum. Álitsorðin eru svohljóðandi:

,,Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og eins og málið hefur verið lagt fyrir samkeppnisráð hefur ráðið komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaður samruni Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. leiði til of mikillar samþjöppunar og markaðsráðandi stöðu á tilteknum mörkuðum á eftirfarandi sviðum; markaði fyrir innlán, markaði fyrir útlán, greiðslumiðlunarmörkuðum og markaði fyrir verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti. Það er niðurstaða samkeppnisráðs að samruninn hafi skaðleg áhrif á samkeppni og brjóti í bága við 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. lög nr. 107/2000.``

Ég fagna því að niðurstaða er fengin í þessu máli. Ég taldi að samruni Landsbanka og Búnaðarbanka væri besta leiðin til að stuðla að hagræðingu á íslenskum fjármagnsmarkaði. Hins vegar hafði ég efasemdir um samkeppnisþátt málsins og kaus því að leggja til við ríkisstjórn að fenginn yrði forúrskurður samkeppnisráðs í stað þess að ganga til sameiningar og fá afstöðu samkeppnisráðs eftir á. Það var rétt leið.

Landsbanki og Búnaðarbanki hafa á þessu ári hvatt stjórnvöld til að stuðla að frekari hagræðingu á íslenskum fjármagnsmarkaði með samruna þessara banka. Stjórnarflokkarnir hafa verið samstiga í þessu máli. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sagt að samruna Landsbanka og Búnaðarbanka eigi að taka til alvarlegrar athugunar. Formaður vinstri grænna hefur meira að segja haldið því fram að samruninn sé borðleggjandi. Talsmaður Samfylkingarinnar sagði í vor við sameiningu Íslandsbanka og FBA að það sé engin glóra í því að ríkið eigi meiri hluta í og reki tvo banka á íslenskum fjármagnsmarkaði og eðlilegt væri að ríkisstjórnin sameinaði ríkisbankana tvo. Formaður Samfylkingarinnar hvatti mig síðan í haust til að leita forúrskurðar samkeppnisráðs.

Ég hafði gert mér vonir um að niðurstaða samkeppnisráðs yrði önnur, ekki síst vegna þess að samkeppnisyfirvöld í fámennum ríkjum hafa leyft mikla samþjöppun á bankamarkaði vegna alþjóðlegrar samkeppnishæfni. En hér togast á tvö sjónarmið, það er annars vegar hagræðingarsjónarmið, þ.e. stærðarhagkvæmni gerir það að verkum að stærri bankar geta veitt fjölbreyttari þjónustu fyrir lægra verð. Hins vegar eru það samkeppnissjónarmið, þ.e. að stækkun og fækkun banka leiði til of mikillar samþjöppunar.

Ég hef ekki haft tóm til að fara ítarlega yfir úrskurð samkeppnisráðs en það mun ég gera á næstu dögum. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég mun ekki draga niðurstöðu ráðsins í efa. Þetta er niðurstaða sem greinilega er fengin að aflokinni ítarlegri vinnu bestu fagmanna á þessu sviði.

Formaður Samfylkingarinnar lét að því liggja í fréttum í sjónvarpi í gærkvöldi að ég vissi þegar niðurstöðu samkeppnisráðs. Ég held að niðurstaða samkeppnisráðs í þessu máli sýni svo ekki verður um villst sjálfstæði ráðsins gagnvart stjórnvöldum.

Það er öllum ljóst að kostnaður í bankakerfinu er of mikill og hagræðingar er þörf. Fjármagnsmarkaðurinn breytist með ógnarhraða. Íslenskir bankar þurfa að búa sig undir ört vaxandi samkeppni við mun stærri erlenda banka. Ástæður samrunabylgjunnar á undanförnum áratug í Evrópu og í Bandaríkjunum má ekki hvað síst rekja til tækniþróunar og alþjóðavæðingar. Sá banki sem ekki getur boðið kjör sem standast alþjóðlegan samanburð verður á endanum undir í samkeppninni.

Eðlilegt er að spurt sé hver séu næstu skref ríkisstjórnarinnar í bankamálum. Ríkisstjórnin hélt fund nú rétt áðan þegar niðurstaða samkeppnisráðs lá fyrir og var þar samþykkt eftirfarandi yfirlýsing:

,,Ríkisstjórnin mun áfram leita leiða til að lækka kostnað í bankakerfinu til að tryggja lægri vexti fyrir heimili og fyrirtæki. Ráðherra mun leggja fram frumvarp á vorþingi þar sem óskað verður heimildar til að selja hlutabréf ríkisins í bönkunum.``

Ég vil að lokum þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér svigrúm til að koma með þessa yfirlýsingu hér.