Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:06:37 (3443)

2000-12-15 16:06:37# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskrh. fyrir að koma svona skjótt til fundar við þingið og greina okkur frá niðurstöðu þessa máls áður en við heyrum það í fjölmiðlum. Ég vil líka þakka hæstv. viðskrh. fyrir það að hún hefur í gegnum þetta ferli reynt eftir því sem hún hafði tök á að halda okkur í stjórnarandstöðunni upplýstum um gang mála, þ.e. hvenær úrskurðar væri að vænta. Fyrir það vil ég þakka.

Að öðru leyti vil ég segja, herra forseti, að í ósigri eiga menn að falla með sæmd, þeir eiga að falla með reisn. Hæstv. viðskrh. kemur hingað og reynir í ósigri sínum að slæma einhverri sök á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri grænna, og formann Samfylkingarinnar og jafnvel talsmann Samfylkingarinnar í fyrra. Það er lítilmannlegt, herra forseti. Það sem hér er að gerast er ákaflega einfalt. Þetta er mikill ósigur fyrir ríkisstjórnina. Þetta er ósigur fyrir hæstv. viðskrh. Þetta er hins vegar sigur fyrir neytendur í landinu og þetta er líka sigur fyrir lýðræðið í landinu vegna þess að þetta er sigur fyrir samkeppnisráð. Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan lét ég að því liggja að hæstv. viðskrh. gæfi sér niðurstöðu þessa máls. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. viðskrh. sýndi þá hneykslanlegu framkomu að ætla að reyna að dreifa hér frv. sem hún hafði látið gera vegna þess að hún gaf sér niðurstöðuna, vegna þess að hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. ráðherrar notuðu öll tækifæri sem þeir gátu til þess að senda stríðsskilaboð til samkeppnisráðs um hver niðurstaðan yrði.

Þess vegna er þetta sigur fyrir lýðræðið vegna þess að samkeppnisráð lét ekki kúgast, það lét ekki beygja sig. Ég tel, herra forseti, að þetta skipti ákaflega miklu máli og ég er stoltur af því að hafa setið í ríkisstjórn sem setti lög um þetta ráð. Það hefur sýnt sig að þetta er einhver mikilvægasti vörður réttra og heiðarlegra leikreglna á markaðnum, herra forseti.

Þetta er hins vegar að ýmsu leyti feigðarflan sem hefur orðið ósigur fyrir skattborgarana í landinu vegna þess að á meðan hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hafa átt í þessu feigðarflani hafa þau verðmæti sem við skattborgararnir eigum í þessum eignum, þ.e. bönkunum tveimur, hríðfallið í verði, þau hafa fallið langt niður fyrir úrvalsvísitöluna. Ég dreg því hæstv. forsrh. og viðskrh. til ábyrgðar fyrir að hafa rýrt eigur íslenskra skattborgara svo milljörðum skiptir, herra forseti.

Ég spyr hæstv. viðskrh. í þessari umræðu: Hvað telur hún að þetta feigðarflan hafi kostað íslenska skattborgara? Ég tel ákaflega nauðsynlegt, herra forseti, að það komi hér fram. Auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á og hæstv. viðskrh. nýtur þeirra forréttinda að vera vitur eftir á. En það var einn flokkur sem ekki var vitur eftir á, einn flokkur sem sagði þetta allt saman fyrir og það var Samfylkingin. Og það var Samfylkingin sem var svo sannfærð um að ríkisstjórnin væri að ganga á svig við samkeppnislög að við fórum hér upp utan dagskrár til þess að beina því til hæstv. viðskrh. að hún leitaði forúrskurðar og hún varð við þeirri bón, hún tók við því ráði og það er þess vegna sem hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. eru ekki ábyrg fyrir því núna í dag að hafa tekið ákvörðun sem hefði í reynd tætt í sundur samkeppnislögin.

Herra forseti. Hvað sagði Samfylkingin? Hún sagði að ef af sameiningu bankanna yrði mundi það leiða til þess að til yrði ofurbanki með markaðsráðandi stöðu. Það mundi tæta sundur samkeppnina og það mundi skaða neytendur. Og hver er niðurstaða samkeppnisráðs, herra forseti. Hún er eftirfarandi, með leyfi forseta: Niðurstaða samkeppnisráðs er að samruninn muni leiða til markaðsráðandi stöðu sameinaðs banka, skaða samkeppni og verða til tjóns fyrir neytendur. Með öðrum orðum, þessi þrjú atriði sem Samfylkingin sagði að ofurbankinn mundi leiða til eru öll staðfest af samkeppnisráði. Samfylkingin hafði rétt fyrir sér um hvert einasta atriði alveg eins og hún hefur haft rétt fyrir sér um hvert einasta atriði varðandi efnahagsmálin, herra forseti. Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt. Og nú glotta þeir og hlæja, hæstv. ráðherrar, sem í hverju einasta málinu á fætur öðru eru teknir í bólinu og nú síðast hérna varðandi sameiningu bankanna.

Herra forseti. Það sem skiptir líka miklu máli í þessu er staða starfsfólksins. Ég tel að það sé hneykslanlegt að sá flokkur sem gekk til kosninga undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi`` skuli ekki í neinu hafa sýnt tilburði til að hafa samráð við starfsfólkið. Eina samráðið, einu upplýsingarnar sem máli skiptir voru þær sem bankastjóri Landsbankans sendi í tölvupósti til allra um að spara ætti milljarð og honum ætti að ná fram á fyrstu sex til átta mánuðum fyrsta heila starfsárins. Með öðrum orðum, það þýddi að segja átti upp 200--300 manns. Þannig fékk fólkið upplýsingar um hvað var að gerast.

Herra forseti. Ég gleðst yfir þessari niðurstöðu. Ég tel eins og ég sagði áðan að hún sé sigur fyrir lýðræðið í landinu en hún er gríðarlegur sigur fyrir neytendur.