Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:11:54 (3444)

2000-12-15 16:11:54# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna sömuleiðis niðurstöðu samkeppnisráðs. Ég sé ástæðu til að óska samkeppnisráði, íslenskum neytendum og okkur öllum til hamingju með þessa niðurstöðu. Það er enginn vafi á því að hér er um tímamótaúrskurð að ræða. Samkeppnisráð stóðst álagið, stóðst þann þrýsting sem á það var sett. Sjálf ríkisstjórn Íslands setti á samkeppnisráð bæði tímapressu og þrýsting hvað varðar tiltekna efnislega niðurstöðu. Samkeppnisráð stóðst þetta próf. 18. gr. samkeppnislaganna eins og hún er nú orðin eftir breytingu skv. lögum nr. 107/2000, sem tók gildi 6. desember, er þannig að öðlast gildi og nýtt líf, má segja. Enginn vafi er á því að þessi tímamótaúrskurður á eftir að hafa áhrif. Hann er fordæmisgefandi og mun eftirleiðis verða mönnum til varnaðar hvað það snertir að halda að þeir geti gert það sem þeim dettur í hug í þessum efnum.

Málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar fær hér auðvitað einnig falleinkunn. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur farið fram ógætilega í þessu máli. Hún hefur skapað óvissu, hún hefur gert bönkunum erfitt fyrir og hún hefur skapað öryggisleysi hjá starfsfólki. Hjá öllu þessu hefði mátt komast með öðruvísi og vandaðri vinnubrögðum. Að sjálfsögðu mátti án þess að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram, án þess að hefja undirbúning að sameiningu bankanna, láta fara yfir það lögfræðilega hvaða líkur væru á að það stæðist ákvæði samkeppnislaga.

Hæstv. viðskrh. hefur vikið orði að afstöðu þess sem hér talar og fleiri manna til þessara mála gegnum tíðina. Það er hárrétt að ég var þeirrar skoðunar á sinni tíð fyrir fjórum, fimm árum að einn af þeim kostum sem menn ættu að skoðu væri sameining ríkisbankanna sem þá voru í 100% eigu ríkisins og við þær aðstæður sem þá voru uppi á fjármálamarkaði áður en sú uppstokkun og samþjöppun hófst sem þar hefur orðið. Ég átti meira að segja aðild að tillöguflutningi um það mál á 120. löggjafarþingi en þá fluttu þingmenn till. til þál. um að kanna sameiningu ríkisviðskiptabankanna. 1. flm. var hv. þm. Margrét Frímannsdóttir en auk þess fluttu tillöguna af þeim mönnum sem enn eiga sæti á þingi hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, sá sem hér talar og Ögmundur Jónasson.

Hverjir andmæltu þá? Það voru sömu flokkar og nú eru í ríkisstjórn. Þeir töldu engar forsendur til þess að sameina ríkisviðskiptabankana og báru m.a. fyrir sig samkeppnislög. Þá virtust núverandi stjórnarflokkar átta sig á því að það gæti orkað tvímælis sökum samþjöppunar og fákeppniseinkenna á markaði að fara út í þá sameiningu. En síðan hafa þeir væntanlega skipt heldur hressilega um skoðun og ætluðu sér að þvinga þennan samruna nú fram.

Það sem mestu máli skiptir úr þessu, herra forseti, --- við getum geymt okkur til betri tíma að ræða aðkomu manna að þessum hlutum frá fyrri tíð og ég verð að segja að ég hlakka sérstaklega til að fá að fara yfir það mál og hef öll gögn um það undir höndum, --- er hvað menn ætla nú að gera. Það sem skiptir máli er að bjarga því sem bjargað verður í þessu herjans, árans klúðri, klúðri sem ríkisstjórnin er búin að skapa.

Í fyrsta lagi á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá fljótræðislegum og illa ígrunduðum einkavæðingaráformum í bankaheiminum. Vænlegast væri að mínu mati að velja nú þann kost að fara svonefnda norska leið, að ríkið gæfi út um það yfirlýsingu að það mundi halda drjúgum eignarhlut í ríkisbönkunum enn um sinn til þess að koma ró á hlutina á nýjan leik og forða því að verðgildi þeirra falli umfram það sem orðið er. Það hefur verkað til aukins stöðugleika og reynst farsælt í Noregi að ríkið gæfi út slíkar yfirlýsingar um að það muni ekki hrófla við tilteknum eignarhlut sínum í bönkunum eða stórfyrirtækjum og þá hafa aðrir meðeigendur ríkisins talið það sem ávísun á farsæla framtíð viðkomandi stofnana og fyrirtækja að þau ættu sér öflugan bakhjarl í tilteknu eignarhaldi ríkisins.

Í öðru lagi á ríkisstjórnin nú, og það er ekki seinna vænna, að lýsa því yfir að ekki muni koma til uppsagna á starfsfólki. Ef gefin væri yfirlýsing um að a.m.k. næstu tvö til þrjú árin yrði ekki farið í uppsagnir heldur leitað samstarfs við starfsfólk og samtök þess um að leysa mál hvers og eins með öðrum hætti væri það mikilsvert atriði, herra forseti, til að eyða óvissu. Ríkisstjórnin á að hætta þeim flumbrugangi og því óðagoti sem hún hefur ástundað í þessum málum. Það er ekki seinna vænna.