Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:22:29 (3446)

2000-12-15 16:22:29# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég var óskaplega hissa hve sigurvegarinn mikli í málinu var æstur hér áðan. Það er nú ekki vani að sigurvegarar séu svona æstir og reiðir þegar þeir fagna stórkostlegum sigri. En hann var það af einhverjum ástæðum og sagði að ríkisstjórnin og viðskrh. og forsrh. hefðu orðið fyrir miklu áfalli og miklum ósigri. Og það var gefið til kynna að þessir aðilar hefðu ætlað að þvinga samkeppnisyfirvöld til einhverra verka.

Ekkert er fjær sanni vegna þess að þeir kostir sem fyrir hendi voru hjá ríkisstjórninni voru hinir venjulegu kostir að sameina þessa banka með lögum. Þá hefðu samkeppnisyfirvöld hvergi komið að málinu. Kostur númer tvö var sá að vísa í ákvæði samkeppnislaga um að Samkeppnisstofnun hefði ekki með málið að gera þegar hin sameinaða eign eða hin tvö sameinuðu fyrirtæki væru að meiri hluta til í höndum sama aðilans. Og í þriðja lagi hefði ríkisstjórnin getað gert það sem flestir gera, að sameina fyrst og láta Samkeppnisstofnun standa frammi fyrir gerðum hlut.

Ekkert af þessu gerði hæstv. viðskrh. eða ríkisstjórnin. Þvert á móti notaði hún heimild sem ekki er mikið notuð, sjaldan notuð, sérstaka heimild um forúrskurði til að fá að vita hvar hún og ríkisstjórnin stæði hvað þetta varðaði. Það er því ekki hægt að tala um neinn sigur eða ósigur í þessum efnum. Hefði ríkisstjórnin viljað fara fram með einhverju offorsi eða miklum ákafa hefði hún að sjálfsögðu lagt fram hér frv. til laga um að sameina banka og ekki látið gilda um sig það sem hún ætlast til þess að sé látið gilda um aðra. Það var nákvæmlega það sem ríkisstjórnin gerði og þess vegna gat ríkisstjórnin ekki neitt unnið eða tapað í þessu máli, hún gat bara fengið svar. Hún bað um svar og fékk svar. Að sjálfsögðu á hinn bóginn hlaut ríkisstjórnin að undirbúa málið eins og það svar yrði jákvætt. Ef svarið yrði neikvætt þá þurfti ekki að undirbúa neitt. En ef svarið yrði jákvætt urðu menn að vera tilbúnir, menn urðu að undirbúa sig. Og það var nákvæmlega það sem hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnin gerði.

Það er ómögulegt fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að tala eins og Samfylkingin hafi séð þetta allt saman fyrir og haft allt, allt aðra skoðun. Síðast í mars segir talsmaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, --- ég ætla nú bara að tala mjög hægt --- og hvað skyldi hún nú segja? Hún segir, með leyfi forseta, að ríkisstjórnin verði að skoða vel möguleikana á því að sameina Búnaðarbanka og Landsbanka í einn öflugan banka. Og síðan bætir hún við, með leyfi forseta:

,,Það er náttúrlega engin glóra í því að ríkið eigi meiri hluta í og reki tvo banka á íslenskum fjármagnsmarkaði,`` segir Margrét Frímannsdóttir, talsmaður Samfylkingarinnar. Segir hún eðlilegt að ríkisstjórnin sameini ríkisbankana tvo og skoði síðan í framhaldi hvort rétt sé að selja hlutafé í bankanum.

Þetta segir talsmaður Samfylkingarinnar og minnist ekki á það að rétt sé að kanna hver sé skoðun Samkeppnisstofnunar á því máli. (Gripið fram í: Hver minntist á það?) Þetta er talsmaður Samfylkingarinnar sem vissi þetta allan tímann, vissi allt svo vel. Rétt eins og ég, eins og hv. þm. sagði, veit allt um efnahagsmálin og hef alltaf haft á réttu standa. Nú síðast var hann að spá óðaverðbólgu og tíu dögum seinna kom verðlagsyfirlitið yfir næsta mánuð og verðbólgan var núll á því augnabliki. Og það hefur ekki heyrst í hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um það síðan, ekki heyrst í honum síðan um það atriði. (Gripið fram í.) Það heyrist nú eitthvert smágjamm í einum þingmannanna hér, en það hefur ekki heyrst í hv. þm., ekki heyrst í hv. núverandi talsmanni Samfylkingarinnar.

En það var sem sagt talsmaður Samfylkingarinnar sem sagði þetta með þessu sterka og mikla orðalagi. Það er því ekki hægt að finna með neinum hætti að því hvernig hæstv. viðskrh. hefur haldið á þessu máli. Hún hefur sérstaklega gætt þess, m.a. vegna þess að hún er æðsti yfirmaður samkeppnismála, og lagt lykkju á leið sína til að gæta þess að samkeppnisákvæði og samkeppnisskilyrði yrðu hvergi hunsuð. Þau yrðu skoðuð fyrst.

Það er afar óvenjulegt að þessi leið sé farin, að samkeppnisskilyrðin séu skoðuð fyrst, það sé fenginn fyrirframúrskurður áður en lengra er gengið. Enda er augljóst að það hefði orðið erfiðara fyrir Samkeppnisstofnun að eiga við málið ef bankarnir hefðu þegar sameinast og síðan ætti Samkeppnisstofnun að leysa það upp á eftir. Það var því allt gert af hálfu hæstv. viðskrh. með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar til þess að gæta þessara sjónarmiða. Það er ekki hægt að lýsa því yfir að þetta sé ósigur fyrir viðskrh. eða ríkisstjórnina. Öðru nær, það var farið nákvæmlega eftir leikreglunum og reyndar nákvæmar en flestir aðrir hafa gert.