Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:29:39 (3448)

2000-12-15 16:29:39# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. má ekki alltaf verða svona reiður þegar formaður Samfylkingarinnar hefur rétt fyrir sér. Staðreyndin er nefnilega sú að þegar málið kom á dagskrá í fyrsta skipti var það auðvitað ljóst að það var mjög tvíbent, gat farið á hvorn veginn sem vera vildi. Því var það að Samfylkingin lagði það til við hæstv. viðskrh. að hún leitaði forúrskurðar Samkeppnisstofnunar og það gerði hún. Það sýnir auðvitað líka og sannar að hún hlaut að mega vænta þess að úrskurðurinn gæti fallið á hvorn veginn sem er, og það á ekki að geta komið mönnum á óvart, neinum hér inni, að úrskurður Samkeppnisstofnunar hafi orðið eins og hann er.

Við skulum gera okkur grein fyrir því hvað Samkeppnisstofnun segir. Samkeppnisráð segir að sameining þessara banka brjóti gegn samkeppnisreglum á sviði markaðar fyrir innlán, markaði fyrir útlán, greiðslumiðlunarmörkuðum og markaði fyrir verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti. Í öllum þáttum hins íslenska fjármálakerfis brýtur þessi ætlaða sameining gegn samkeppnisreglum.

Samkeppnisstofnun segir meira, herra forseti. Samkeppnisstofnun segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Íslenskur fjármálamarkaður ber nú þegar mörg einkenni fákeppni. Þjónustan er í flestum tilvikum einsleit, keppinautar eru fáir og verðlagning er gagnsæ. Þetta er nú þegar fákeppnismarkaður.``

Hvað á að gera, virðulegi forseti? Ég tek undir með hæstv. utanrrh. Nú eiga menn að stíga varlega til jarðar. En þessi úrskurður Samkeppnisstofnunar krefst þess af ríkisstjórninni að hún einblíni ekki bara á einkavæðingu fjármálafyrirtækja. Við erum ekkert andvígir því í Samfylkingunni. Við teljum að samkeppnisrekstur af þessu tagi sé betur kominn í höndum einstaklinga en fyrirtækja. En meginatriði málsins er að hvað svo sem gert er, sé það tryggt að fákeppni eigi sér ekki stað, þá beri aðgerðir ríkisstjórnarinnar vott um það að hún muni koma í veg fyrir fákeppni og stuðla að aukinni samkeppni. Það er meginatriði málsins í stöðunni núna. Það er það sem ríkisstjórninni ber skylda til að gera, að auka samkeppni en ekki fákeppni.