Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:34:51 (3450)

2000-12-15 16:34:51# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er undarlegt að hlýða á menn draga þá ályktun að þessi úrskurður sé einhver sérstakur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin ákvað í þessu máli undir forustu viðskrh. að leita til einnar undirstofnunar ríkisstjórnarinnar, eftirlitsstofnunar í ríkiskerfinu, sem er Samkeppnisstofnun. Út úr því máli kemur sá úrskurður sem menn eru hér að ræða. Það lá alveg fyrir að hann gat fallið á þennan veg og núna eru komin við þessu máli skýr svör. Auðvitað eru þau önnur en menn höfðu kannski verið að vona en menn ákváðu það fyrir fram að beygja sig undir þann úrskurð hver svo sem hann yrði. Niðurstaðan er skýr og málið fer ekki fram á þeim forsendum sem ráðgerðar voru.

Þá þurfa menn að þessum þætti afgreiddum að huga að framhaldinu. Og hvert á framhaldið að vera? Hæstv. viðskrh. sagði það reyndar alveg skýrt áðan. Stefna ríkisstjórnarinnar er, og hún er óbreytt, að selja hlut ríkisins í þessum tveimur fyrirtækjum og frá þeirri stefnu verður ekkert hvikað. Það mun koma fram frv. um það efni á vorþinginu og væntanlega fær það jákvæða afgreiðslu, m.a. með stuðningi eins af stjórnarandstöðuflokkunum sem hefur lýst áhuga sínum á því máli, þannig að ríkið mun draga sig út úr þeim rekstri hvað sem öðru líður og er það löngu tímabært.

Hvort nýir aðilar koma síðan inn á þennan markað, t.d. erlendir aðilar, verður tíminn að leiða í ljós en það væri auðvitað mjög jákvæð þróun í framhaldi af þeirri niðurstöðu sem orðin er.