Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:49:21 (3457)

2000-12-15 16:49:21# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson taldi að þessi dómur eða niðurstaða samkeppnisráðs yrði ekki til hagsbóta fyrir Verslunarráðið og því trúi ég vel en það læt ég mér í léttu rúmi liggja.

Hv. þm. Hjálmar Árnason taldi það hæstv. viðskrh. sérstaklega til hróss og vegsemdar að hún hafi lýst því yfir að hún mundi hlíta niðurstöðu samkeppnisráðs. Það er hægt að spyrja gagnstætt: Er annað hugsanlegt en svo hljóti hæstv. ráðherra að gera og þarf þess vegna ekki að prísa hana sérstaklega fyrir það.

Hæstv. fjmrh. sagði að þetta væri ekki áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Það kann að vera, en mikið áfall er það. Mikið áfall eftir það sem á undan var gengið að þetta mál skyldi verða rekið heim til föðurhúsanna með þessum hætti.

Hæstv. utanrrh. sagði að afskaplega vel hefði verið staðið að málinu og endaði þó með heiftarklúðri sem hæstv. viðskrh. stjórnaði með aðför sinni að yfirstjórn Búnaðarbankans. Það sem ógert var í málinu frá upphafi var samráð og samvinna við starfsfólk þessara fyrirtækja sem er sjálfsagt um 1.000 manns. Það var enginn vandi þótt það hefði kostað töluvert fé að semja við fólkið um hættur með skaplegum hætti þótt það hefði kostað tvö, þrjú eða jafnvel fimm ár. Miðað við þann hag sem það hefði borið í skauti sínu fyrir fyrirtækin var það ekki mikið í lagt. Öllu þessu var sleppt heldur ruðst áfram sjálfsagt með ávinninginn milli flokkanna þar sem þeir hafa verslað sín í milli með sameiningu bankanna og sölu Landssímans og virðist nú ekki fara í láginni.