Innflutningur dýra

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 10:05:27 (3464)

2000-12-16 10:05:27# 126. lþ. 51.3 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[10:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, er til lokaumræðu. Hluti af því sem er verið að gera með þessum breytingum er að laga þessi lög að þegar breyttum lögum, svo sem búnaðarlögum, og er það í sjálfu sér hið besta mál.

Hitt, herra forseti, vil ég ítreka og leggja inn varnaðarorð gagnvart því að hér er verið að slaka á ábyrgð sjálfs landbrn. sem hefur annast innflutning dýra og bæði sóttvörn og eftirlit sem þar hefur verið. Þó það hafi falið öðrum aðila ákveðna þætti í því hefur landbrn. borið ábyrgð á framkvæmdinni.

Með þeim breytingum sem verið er að gera er lagt til að eftirlitið verði áfram opinbert en framkvæmdin geti verið í höndum ýmissa aðila sem er tilgreint í frv., allt frá því að vera opinberir aðilar og félagasamtök og einstaklingar og fyrirtæki.

Ég legg áherslu á að að mínu mati á það ekki að vera neinn stór atvinnuvegur að flytja inn dýr, dýr sem eru ekki heldur notuð til atvinnurekstrar. Þessi innflutningur á ekki í sjálfu sér að vera stór atvinnuvegur. Fyrst og fremst er verið að sinna ákveðnum takmörkuðum þörfum en jafnframt að það sé gert af hinu fyllsta öryggi og í engu slakað til og þar eigi hið opinbera að bera fulla ábyrgð, bæði hvað varðar framkvæmd á þessu eftirliti og fylgja því eftir.

Sú hætta er fyrir hendi að einstaklingar, félög eða fyrirtæki ráðist í að stofna til einangrunaraðstöðu eða sóttvarnaaðstöðu og geti jafnvel fengið til þess heimildir en þá þarf líka að fylgja eftir eftirlitinu og því fleiri staðir sem annast slíka sóttvörn eða annað slíkt sóttvarnastarf, því dýrara og jafnvel flóknara er eftirlitið.

Herra forseti. Ekki er lagt eðlilegt kostnaðarmat á þessa breytingu. Gengið er út frá því í umsögn fjmrn. að telja að frv. sem slíkt hafi ekki aukinn kostnað í för með sér, svo fremi sem ekkert er farið eftir því, svo fremi sem ekki eru nýttir aðrir möguleikar til að stofna sóttvarnabú sem frv. býður upp á. Ef þeir eru ekki nýttir hefur það kannski ekki aukinn kostnað í för með sér, en hitt hlýtur að vera vangá hjá fjmrn. að taka ekki með í reikninginn að fjölgun sóttvarnabúa sem frv. gefur möguleika á þýðir aukið sóttvarnaeftirlit. Það getur ekki gert annað. Áfram er í þessum lögum gengið út frá því að hið opinbera annist sóttvarnaeftirlitið og ég er ekki búinn að sjá að neytendur eða þeir sem eigi dýr þarna séu reiðubúnir að greiða þann aukakostnað og kannski ekki sanngjarnt vegna þess að þetta eru fyrst og fremst varnaðar- og varúðarráðstafanir sem við erum að gera gagnvart starfsemi okkar og lífríki okkar.

Því tel ég, herra forseti, að þessi umsögn fjmrn. og fjárlagaskrifstofunnar sé afar ófullkomin og hefur kannski ekki verið gerð full grein fyrir hvers þetta frv. gæti leitt til, svo sem eins og kæmu fleiri nýir aðilar inn með sóttvarnabú.

Herra forseti. Ég ítreka það sem kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta frá landbn., hv. þm. Þuríði Backman, þar sem hún undirstrikar einmitt að eftirlit með sóttvarna- og einangrunarstöðvum verður að vera virkt og á ábyrgð hins opinbera. Í nefndarálitinu víkur hún einmitt að kostnaðarhliðinni. Mikilvægt er að fjölga stöðugildum sóttvarnadýralækna í samræmi við fjölda einangrunarstöðva og aukinna verkefna sem þetta frv. getur leitt af sér. Í nefndaráliti hv. þm. Þuríðar Backman víkur hún einmitt að þessum þætti.

Herra forseti. Ég ítreka þau varnaðarorð sem ég hef áður látið falla í umræðunni um innflutning dýra og þær sóttvarnaaðgerðir sem okkur ber að gera. Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir Íslendinga, sem njóta þeirrar stöðu að vera eyþjóð, fyrir lífríki okkar, fyrir búskap okkar, fyrir atvinnulíf okkar. Þá eigum við að gæta þess að njóta þeirra kosta sem þar eru en ekki véla með þá og draga úr þeim og bjóða hættunni heim eins og við heyrum að herjar nú á mörg lönd í kringum okkur án þess að ég ætli að segja að þessi lög séu beint að opna fyrir það með sama hætti og þar er að gerast.

Þá vil ég og benda á, herra forseti, að sóttvarnir og sóttvarnaeftirlit og einangrun eins og lög kveða á um varðandi dýr kosta peninga og kosta virkt eftirlit og það væri algert gáleysi og algert hugsunarleysi ef horfa ætti fram hjá því en það býður þetta upp á. Verði ekki nóg fjármagn til þess að fylgja eftir eftirlitinu og verði ekki til nægileg sérfræðiþekking og virkt eftirlit, þá má búast við að illa geti farið.

Herra forseti. Ég hvet til þess að farið sé að með mikilli aðgæslu og tel reyndar að í frv. sé verið að ganga að ástæðulausu og þarfleysu of langt í að rýmka heimildir til þess að reka sóttvarnabú.