Innflutningur dýra

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 10:25:54 (3469)

2000-12-16 10:25:54# 126. lþ. 51.3 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[10:25]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru sniglar í íslenskri náttúru. Það eru kýr á Íslandi. Ég sé ekki muninn á því að flytja inn erlenda kú eða fósturvísa til að rækta erlendar tegundir og því að flytja inn snigla til að rækta þá og setja eftir einhver ár í íslenska náttúru. Ég er ekki að snúa út úr, virðulegi forseti. Ég er einungis að spyrja um skilin milli landbrn. og umhvrn. í þessum efnum. 41. gr. laga náttúruvernd þar sem fjallað er um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera er mjög skýr. Málið snýst ekki um hvort norska kýrin er flutt inn til að Íslendingar kunni betur að meta íslenskar kýr. Það var alls ekki ætlun mín að vera með útúrsnúninga. Það er frekar að hæstv. ráðherra sé að snúa út úr spurningu minni. Ég spyr: Hvar liggja mörkin á milli ráðuneyta hvað þetta varðar? Hvenær telst tegund vera ný, lifandi lífvera í íslenskri náttúru?