Fjáröflun til vegagerðar

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 11:06:41 (3475)

2000-12-16 11:06:41# 126. lþ. 51.10 fundur 283. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (þungaskattur) frv. 165/2000, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um frv. sem felur í sér að þungaskattur lækkar um 10%. Það er sjaldan að svo góð mál séu í þingsölum. Þetta er gert til að koma til móts við þá sem gera út bíla sem nota olíu.

Það er ekki bara olíuverðið sem hefur hækkað og hefur verið þeim þungt í skauti er reka slíkar bifreiðar. Tryggingar hækka líka um 30%. Mikil hækkun er á varahlutum og dekkjum. Svo má náttúrlega ekki gleyma því að þungaskatturinn var hækkaður í vor vegna úrskurðar samkeppnisráðs í þriðja skiptið á tveimur árum eða þremur.

Ég þakka fjmrh. fyrir að hafa brugðist svona fljótt við óskum þeirra sem leituðu til hans og snarað þessu frv. fram og ég hef trú á því að það verði stutt hér eindregið.

Það var líka merkilegt, sem kom fram í nefndinni þegar við báðum um upplýsingar um tekjur vegna þungaskatts á árinu, að þær eru mun meiri en áætlað var þannig að það er til fyrir þessari lækkun þungaskattsins og hefði kannski mátt lækka hann heldur meira en þetta.

Ég tel þetta vera hið besta mál og vil líka taka undir það sem aðrir hv. þm. hafa rætt í þessu máli, þ.e. olíugjaldið sem er mjög nauðynlegt að verði tekið til umfjöllunar í nefndinni. Við eigum að fá það einhvern tíma í mars eða apríl. Bara útgerð á þungaskattsmælum er kostnaður upp á einhverja tugi milljóna á ári, bara viðhaldið á þeim, og stofnkostnaður mæla fyrir allan flotann er hundruð milljóna. Ég held að þegar þungaskatturinn er kominn inn í olíuna þá hvetji það menn mjög til sparnaðar á þessu. Menn kaupa þá tæki sem nýta olíuna sem best. Ekkert í núverandi kerfi hvetur til þess.