Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:10:04 (3483)

2000-12-16 13:10:04# 126. lþ. 51.11 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[13:10]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri þá kröfu til formanns efh.- og viðskn. að hann fari rétt með úr ræðustól. Ég geri þá kröfu til formanns efh.- og viðskn. að hann fylgist betur með störfum efh.- og viðskn. en ummæli hans gefa til kynna að hann geri.

Hvernig var málið afgreitt á síðasta þingi? Jú, þingið sjálft, meiri hlutinn, vísaði málinu aftur til hæstv. viðskrh. með þeim rökum sem hv. þm. nefndi, að það væri ekki nóg að setja brýn ákvæði um meðferð trúnaðarupplýsinga og innherjamál í reglugerð. Hvað gerðum við í minni hlutanum? Við settumst yfir það að smíða lagastoð um ýmis atriði sem snertu innherjamálin og meðferð trúnaðarupplýsinga. Við fluttum ítarlegt nál. þar sem við gagnrýndum að löggjafinn setti frá sér málið af því að ráðherrann bæði um reglugerðarheimild. Við töldum að nefndin ætti sjálf að útbúa lagastoð fyrir mikilvæg ákvæði sem vantaði þá við meðferð ráðherrans á málinu.

En við fluttum margar brtt. um þetta mál á síðasta þingi. Þær snertu það sem ég hef verið að gagnrýna, innherjaviðskipti, meðferð trúnaðarupplýsinga og hvernig verðbréfafyrirtækin eru í viðskiptum með eigin reikning á sama tíma og þau sýsla með eignasöfn viðskiptavina sinna. Allar tillögur okkar um að koma lögum yfir þessi atriði voru felldar, m.a. af hv. þm., formanni efh.- og viðskn.

Varðandi hitt atriðið, herra forseti, þá höfum við ekki sama skilning á hvað eru hagsmunaárekstrar, ég og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Við höfum ekki sama skilning á því hvað hagsmunaárekstrar eru. Eftirlitsaðili eins og Fjármálaeftirlitið á ekki að miðla málum fyrir hagsmunaaðila í löggjöf sem þeir eiga að vinna eftir.