Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:41:11 (3488)

2000-12-16 13:41:11# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. segir að það hafi verið hörmulega rangt mat af kennarastéttinni eða framhaldsskólakennurum að fara í þetta verkfall. Það verður að koma fram hér að kennarar höfðu mánuðum saman reynt að fá umræður um þá grundvallarhluti sem yrði rætt um í samningaviðræðunum. Þeir reyndu mánuðum saman að fá samninganefnd ríkisins að þessum viðræðum og því var aldrei neinn áhugi sýndur. Það er viljaleysi og áhugaleysi þeirra stjórnvalda sem nú ríkja sem hefur komið þessari deilu í þann hnút sem hún er í núna. Yfirlýsingar stjórnvalda um mikilvægi menntunar eru hjáróma. Þær eru í meira lagi ómstríðar þar sem enginn vilji og enginn áhugi virðist vera til þess að taka á þeim grundvallaratriðum málsins sem hafa legið fyrir mánuðum saman og lágu raunar fyrir u.þ.b. ári áður en boðað var til verkfalls.

Vægi menntunar í landinu verður ekki aukið nema til komi auknir fjármunir. Þessa fjármuni hefur ríkisstjórnin ekki verið tilbúin að leggja fram heldur hefur verið hangið í tæknilegum atriðum, vinnutímaskilgreiningum, starfsaðstöðu og sveigjanleika. En sannleikurinn er sá að kennarar hafa ætíð lýst sig reiðubúna til þess að ræða um vinnutímaskilgreiningar og sveigjanleika. Það hefur aldrei staðið á þeim hvað það varðar.

En um það næst engin sátt án aukinna fjármuna. Þannig snýst kjaradeila kennara um áherslur ríkisvaldsins í menntamálum. Gott menntakerfi kostar peninga en þá peninga hefur ríkisstjórnin ekki verið tilbúin til að leggja fram. Kennarar og fjölskyldur þeirra, framhaldsskólanemar og fjölskyldur þeirra eiga skilið að hæstv. fjmrh. sýni nú í verki að hann hafi þann áhuga sem hann nefndi í ræðu sinni áðan og ég skora á hann, herra forseti, að hann geri átak í þessum samningamálum og sýni fram á að hægt sé að leysa þessa deilu af hálfu ríkisvaldsins á næstu dögum. Kennarar, fjölskyldur þeirra, framhaldsskólanemar og fjölskyldur þeirra eiga það skilið nú fyrir jólin.