Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:46:59 (3491)

2000-12-16 13:46:59# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það síðasta sem frést hefur af kjaradeilu framhaldsskólakennara og ríkisins er að útlit sé dökkt. Kennarar saka ríkið um skort á samningsvilja. Ráðherrar vilja breyta launakerfi kennara. Skólameistarar og ríkið hafa átt í viðræðum um skilgreiningu á skólastarfi til framtíðar.

Ég lýsi því yfir hér úr ræðustól hins háa Alþingis að ég tel þá stöðu sem þessi mál eru í ófyrirgefanlega. Ég tel að rakinn klaufaskapur og andvaraleysi sé ástæða þess hvernig málið stendur. Þess má geta sér til að beinn og afleiddur kostnaður af þessari hörmulegu deilu geti verið um allt að 6 milljarðar kr. Og nú skulu menn leggja sig niður við að reikna og átta sig á því hvernig það stendur.

Sem foreldri framhaldsskólanema, sem þingmaður og þegn krefst ég þess að deiluaðilar klári þetta mál í einni lotu, saman innilokaðir, þar til lausn er fundin. Við skulum vera minnug þeirra orða að vilji er allt sem þarf. Vilji er allt sem þarf.