Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:53:09 (3494)

2000-12-16 13:53:09# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hverjum er um að kenna að skólastarfið er í uppnámi, að framhaldsskólarnir eru við það að hrynja, að nemendur ná e.t.v. ekki að ljúka prófum, ekki að útskrifast, að langur tími mun líða þangað til búið verður að byggja upp skólastarfið í sama form og það var fyrir verkfall, að menntun í landinu hefur ekki í langan tíma verið sýnd öllu meiri lítilsvirðing en núna, að ekki hafi verið samið án verkfalls og að erfitt getur reynst að brúa það bil sem myndast í fjárlögum skólanna vegna þess að ekki er hægt að taka inn tvo árganga í einu? Hverju er um að kenna?

Hæstv. ráðherra sagði áðan að við því væri einfalt svar, þ.e. kennurunum vegna þess að þeir hefðu með tiltölulega stuttum fyrirvara farið í verkfall sem enginn hafði gert sér grein fyrir. Það mátti heyra af orðum hans að enginn hefði gert sér grein fyrir því að verkfall stæði fyrir dyrum.

Í heilt ár hafa kennarar lagt áherslu á að þeir vilji fá laun til samræmis við launakjör annarra háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins og þá þróun sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum. Í heilt ár hafa þeir sagt: Við munum sækja þessar kjarabætur. Síðan hlusta ég á hæstv. ráðherra segja: Þeir munu ekkert fá nema það sem hefði verið hægt að sækja án verkfalls.

Málið var að ríkisvaldið reyndi ekki, gerði ekki tilraun til að semja við þá þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Er þá hægt að segja að það uppnám sem skapast hefur í skólastarfinu sé kennurunum að kenna og þegar nemendur ekki útskrifast sé það bara kennurunum að kenna? Þetta er stórt byggðapólitískt mál og sá þáttur hefur kannski ekki verið nefndur mikið í umræðunni. En við blasir mjög alvarlegur hlutur ef framhaldsskólarnir á landsbyggðinni hrynja.