Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:57:33 (3496)

2000-12-16 13:57:33# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða. Þó kom fjmrh. að sjálfsögðu ,,á skjóttum`` eins og við mátti búast og hverju var hann að lýsa eftir hér? Hann var að lýsa því að kröfugerðin hefði ekki borist nógu snemma, kröfugerðin sem hefur valdið, að mér skilst, allri andarteppunni sem þeir hafa átt við að glíma undanfarnar vikur, þessi hræðilega kröfugerð sem gerði það að verkum að ekki var hægt að ræða við framhaldsskólakennara. Nú barst hún ekki nægilega snemma!

Þá vil ég enn á ný benda á það svigrúm sem gafst á því heila ári sem leið frá því að framhaldsskólakennarar báðu um viðræður og þangað til þeir komu fram með kröfugerðina sem öllu breytti og allt eyðilagði. Og ekki var rætt við þá. Hvers vegna var það svigrúm ekki notað, hæstv. forseti? Ég verð að lýsa eftir skýringum á því. Það er mjög dularfullt mál í hæsta máta.

Hér kom fram að gera þyrfti skipulagsbreytingar á skólanum og að það væri vilji ríkisstjórnarinnar. Ég held að það hafi allan tímann legið fyrir, líka þetta ár áður en samningarnir runnu út, að kennarar vildu ræða breytingar á skipulagsmálum og það var ekkert sem aðeins ríkisstjórninni datt í hug.

Ég met stöðuna núna þannig að samningar eigi að geta náðst ef ríkið sýnir sæmilegan sveigjanleika í stöðunni. Ég vil enn skora á hæstv. fjmrh. að láta til skarar skríða og ganga frá þessu máli fyrir jól. Ég tel að á því eigi að vera góður möguleiki og það bæri ekki vott um mikla herstjórnarlist að senda kennara og nemendur inn í jólahátíðina með öll þessi mál í uppnámi eftir það sem á undan er gengið.