Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:02:51 (3498)

2000-12-16 14:02:51# 126. lþ. 52.1 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt hve þétt setinn þingsalurinn er við framhald á umræðu um verðbréfaviðskipti og vonandi munu sem flestir tjá sig um þessi efni, en eins og kunnugt er hefur orðið mikil breyting á fjármálamarkaði og í efnahagslífinu almennt á Íslandi á liðnum árum. Hér hefur sprottið upp öflugur verðbréfamarkaður og hefur hann að ýmsu leyti orðið til góðs. Hann hefur auðveldað eigendum fyrirtækja að koma eignum sínum í verð og festa kaup á nýjum eignum og stuðla þannig að hreyfanleika í atvinnulífinu.

Ekki hefur þessi breyting þó öll orðið til góðs. Hæstv. forsrh. orðaði það svo á síðasta landsfundi Sjálfstfl. að á Íslandi hefði eignagleði aukist og eignagleðin væri til góðs.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Mönnum er mikið niðri fyrir þegar þessi mál ber á góma, það er skiljanlegt. Ég var að vitna í ummæli hv. forsrh., ég held að það hafi verið á síðasta landsfundi Sjálfstfl., þegar hann sagði að ýta ætti undir eignagleði meðal Íslendinga. Því ríkari sem eignagleðin verður því minna svigrúm hefur öfundin. Þetta sagði hæstv. forsrh. á síðasta landsfundi Sjálfstfl. og vitnaði hann þar í þá nýju hugsun --- hún er reyndar ekki ný af nálinni --- sem hefur verið að ryðja sér til rúms á Íslandi, græðgina og gróðavonina, og hefur leikið nokkuð lausum hala.

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur skilning á því að hv. þm. þurfi að spjalla saman síðasta þingdaginn fyrir jól, en þau samtöl verða að fara fram utan þingsalar.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Hins vegar truflar það mig ekki nokkurn skapaðan hlut þó að menn séu að spjalla hér saman um þessi efni því að ég hef alveg nægan tíma, ég hef nægan tíma og mun gefa mér hann til að fjalla um þessi mál.

Frv. sem hér er til umræðu fjallar um verðbréfaviðskipti, en lög voru sett um verðbréfaviðskipti árið 1996 og þau voru síðan endurskoðuð í fyrra og ýmsar bætur gerðar þá á fyrri lögum. Hins vegar var ekki tekið á ýmsum mikilvægum málum og í efh.- og viðskn. höfum við gagnrýnt að ekki hafi verið tekið nægilega vel á innherjaviðskiptum, meðferð trúnaðarupplýsinga, viðskiptum með óskráð verðbréf, framkvæmd útboða og viðskipti verðbréfafyrirtækja fyrir eigin reikning. Reyndar er tekið á þessum málum í frv. og þar er að finna ýmsar lagabætur sem við munum styðja. Þegar á heildina er litið teljum við frv. vera til góðs, en vildum hins vegar að fastar hefði verið tekið á ýmsum atriðum sem ég nefndi hér.

Við höfum gagnrýnt hvernig unnið hefur verið að þessu frv. Frumvarpsdrögin voru samin af nefnd þar sem fulltrúar Verðbréfaþings og Fjármálaeftirlits og hagsmunaaðila á fjármálamarkaði komu saman að málum og þótt það geti verið til góðs að stofnanir á borð við Fjármálaeftirlitið komi að samningu frumvarpa á borð við þetta að mínum dómi, þá er óeðlilegt þegar þessir aðilar eru settir allir saman í nefnd og komast að niðurstöðu sem byggir á málamiðlun. Við teljum að það veiki stöðu aðila á borð við Fjármálaeftirlitið til að sinna rágefandi hlutverki sínu gagnvart löggjafanum. Þessir aðilar koma sér saman um niðurstöðu sem byggir á málamiðlun og þá á Fjármálaeftirlitið eða fulltrúar þess erfiðara um vik að taka afdráttarlausari og einarðari afstöðu þegar þeir tjá sig gagnvart löggjafanum og okkur þótti nokkuð bera á því við vinnuna við frv.

Hins vegar er afskaplega erfitt að taka á þessum málum einfaldlega vegna þess að þegar grannt er skoðað er það siðferðið sem gildir. Við getum reynt að setja okkur reglur og ramma til að starfa samkvæmt, en endanlega er það siðferðið sem gildir. Ef það er ekki til staðar eða því er mjög ábótavant er vandséð hvernig hægt er að komast hjá svindli og óeðlilegu braski með reglugerða- og lagasmíð. Hins vegar ber okkur að ganga eins langt og við getum í því efni.

Þegar litið er á þennan markað kemur í ljós að byggðar eru inn í hann og inn í þetta kerfi ýmsar mótsagnir. Það gerist t.d. að verðbréfafyrirtæki eru að gera þrennt í senn. Þau eru að koma á markað hlutabréfum fyrir fyrirtæki, þau eru sjálf að kaupa slík hlutabréf fyrir eigin reikning og í þriðja lagi eru þau að ráðstafa fjármunum til fjárfestinga fyrir enn einn aðilann, t.d. lífeyrissjóðina. Og bara þetta eitt býður upp á ýmsar hættur. Þannig getur það verið hagsmunamál fyrir þann sem er að kaupa fyrir eigin reikning en jafnframt að selja hlutbréf fyrir fyrirtæki að hafa hlutabréfin á lágu verði þegar salan fer fram gagnvart eigin fyrirtæki vegna þess að það færir verðbréfafyrirtækinu hagnað og þegar fjármunum þriðja aðilans er ráðstafað eru það hagsmunir verðbréfafyrirtækisins að fá hátt verð fyrir bréfin til að hagnast sjálft á viðskiptunum, en fyrir fjárfestingarsjóðinn eða lífeyrissjóðinn er þetta að sjálfsögðu tap, þannig að beggja vegna verðbréfafyrirtækisins sem er að kaupa fyrir eigin reikning verður tap.

Menn vilja leysa þetta með því sem þeir kalla Kínamúra. Kínamúrar byggjast á því að innan fyrirtækjanna starfi fólk sem sinni mismunandi hlutverkum, einn annist söluna, annar fjárfesti fyrir reikning verðbréfafyrirtækisins og þriðji aðilinn hafi með fjárfestingar fyrir lífeyrissjóði eða aðra sjóði að gera og það eigi enginn að vita neitt af því hvað hinir eru að sýsla og þess vegna séu engir hagsmunaárekstrar uppi.

Þessu vísa ég algjörlega á bug. Þetta er nánast hlægilegt. Þegar um er að ræða mikla hagsmuni eins og gjarnan gerist á þessum markaði eru óneitanlega miklar hættur á ferðinni. Ég hef velt því fyrir mér hvort það er yfirleitt siðlegt að sama fyrirtækið gegni öllum þessum hlutverkum. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri eðlilegra að aðili sem er t.d. að fjárfesta fyrir sjóði á borð við lífeyrissjóði gegni ekki öðrum hlutverkum, sinni engum öðrum skyldum en nákvæmlega þessari og önnur fyrirtæki og aðrir aðilar sjái um að koma hlutabréfum í verð og síðan sé það annað þegar menn eru að braska eða versla með þetta fyrir eigin reikning.

Það voru fulltrúar frá verðbréfafyrirtækjunum sem bentu okkur á það að ef við settum slíkar reglur mundu menn einfaldlega mynda dótturfyrirtæki eða tengd fyrirtæki þannig að við værum í reynd með sama veruleikann uppi. Það má vel vera að erfitt sé að finna einhverja lausn á þessu svo algild sé og á endanum er vandinn náttúrlega sá að það er siðferðið sem allt veltur á.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór mjög rækilega í gegnum frv. og ég ætla ekki að fara að tíunda einstakar greinar þess. Hún vék að ýmsum greinum sem við höfum gert athugasemdir við, þar á meðal 7. gr., en í c-liðnum í upphaflegu frv. sagði, með leyfi forseta:

,,Fruminnherjar skulu forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins þegar ætla má að fyrir liggi trúnaðarupplýsingar hjá útgefanda, svo sem skömmu fyrir birtingu ársreiknings eða milliuppgjörs eða skömmu fyrir tilkynningu um mikilvægar ákvarðanir eða atvik sem varða útgefanda verðbréfanna.``

[14:15]

Nú er komin fram brtt. við þennan lið sem er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Fruminnherjar skulu ganga úr skugga um það áður en þeir eiga viðskipti með verðbréf félags, sem þeir eru fruminnherjar í, að ekki liggi fyrir trúnaðarupplýsingar innan félagsins.``

Þessi brtt. er til bóta. Við hefðum viljað hafa þetta afdráttarlausara og setja við þessu bann.

En því vek ég sérstaklega athygli á þessari grein að hún varpar svolítið ljósi á stöðuna á þessum markaði. Hverjir eru fruminnherjar? Fruminnherjar eru samkvæmt skilgreiningu frv., með leyfi forseta:

,,Aðilar sem búa yfir eða hafa að jafnaði aðgang að trúnaðarupplýsingum vegna eignaraðildar, aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda verðbréfa sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi.``

Þetta finnst mér segja nokkuð mikla sögu. Við erum að reyna að setja reglur og reisa við því skorður að aðilar sem eru innan þessara fyrirtækja séu iðulega sjálfir, prívat og persónulega, að braska. Að aðilar sem fjárfesta fyrir ábyrga sjóði eins og lífeyrissjóði eða aðra ámóta séu sjálfir, prívat og persónulega, að braska. Þessi mannskapur getur ekki setið á sér og hamið eignagleði sína --- lesist græðgi sína --- betur en þessu nemur. Þess vegna er löggjafinn að setja við þessu skorður. Lagagreinin gengur út á það og við teljum að þarna hefði einfaldlega átt að setja bann við slíkum viðskiptum og kveða miklu fastar að orði.

En á endanum er veruleikinn sá að það er siðferðið sem skiptir máli. Það skiptir hins vegar máli að aðilar á fjármálamarkaði reyni að koma sér saman um reglur og þetta frv. er tilraun til þess. Við hefðum talið að öðruvísi hefði átt að standa að samningu þess. Við hefðum talið að frv. hefði átt að vera ákveðnara í ýmsum efnum. Ég velti því upp hvort hægt er að setja lög eða reglur sem kveða á um algeran aðskilnað á milli þeirra ólíku hlutverka sem verðbréfafyrirtækin gegna sem býður upp á brask og hreint svindl. Það er verkefni sem bíður okkar. En þegar á heildina er litið erum við með þessu frv. að stíga fram á við. Þetta frv. markar ákveðin framfaraspor og við munum styðja það með þó þeim fyrirvörum sem ég hef nefnt.