Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:21:02 (3500)

2000-12-16 14:21:02# 126. lþ. 52.1 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Gefum okkur það dæmi að Kaupþing selji hlutabréf fyrir Járnblendifélagið, kaupi fyrir eigin reikning en sé jafnframt að fjárfesta fyrir lífeyrissjóði og selji þeim síðan þessi bréf --- ekki frá Járnblendifélaginu heldur frá sjálfu sér. Ef þetta væri raunverulegt dæmi væru ekki óeðlilegir hagsmunaárekstrar þarna á ferðinni?

Hér var fyrirtæki, sem heitir Morgan Stanley, fjárfestir fyrir lífeyrissjóði, sennilega stærsti aðilinn sem fjárfestir fyrir lífeyrissjóði. Þetta sama fyrirtæki var að koma á framfæri eða stóð að útboðum fyrir deCode-fyrirtækið og hafði hagsmuni af því að koma verðinu á þeim hlutabréfum upp í forútboði sem fram fór fyrir fáeinum mánuðum. Telur hv. þm. enga hættu samfara því að verðbréfafyrirtæki eru að sinna margþættu hlutverki? Hér erum við að tala um miklar upphæðir og mikla hagsmuni.