Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:24:39 (3502)

2000-12-16 14:24:39# 126. lþ. 52.1 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að vissulega sé nokkuð til í því sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir að það er mikilvægt fyrir verðbréfafyrirtæki að varðveita trúnaðinn vegna þess að missi þau trúnaðinn og trúnaðartraustið þá missi þau viðskiptavini sína.

Hins vegar held ég að það sé nú svo að oft sé mjög erfitt fyrir þá sem eru að fjárfesta að fylgjast með öllum hreyfingum á þessum mörkuðum. Ég held að staðreyndin sé sú að þeir setji iðulega allt sitt traust á þessi fyrirtæki og ég held að það eigi t.d. við um marga lífeyrissjóði. Þá er beinlínis hættulegt þegar mótsagnakenndir hagsmunir eru innbyggðir í starfsemina. Ég held það sé mjög hættulegt þegar sama fyrirtækið er að selja hlutabréf, kaupir fyrir eigin reikning og ráðstafar síðan áfram til næsta aðila.

Það er umhugsunarefni hvað er að gerast á þessum markaði. Lífeyrissjóðirnir eru t.d. farnir að borga meira til þessara fyrirtækja, til þessara fjárfestingaraðila en þeir greiða í eigin starfsemi í að reka eigin kontóra. Verið er að smíða risastóra nýja yfirbyggingu í þessum verðbréfaheimi. Það er hún sem er að verða ráðandi og þar er sérfræðin til staðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir lífeyrissjóðina að hyggja að því hvert þeir eru að halda í þessum efnum að afsala sér alveg yfirsýn yfir fjármálin í hendur þessara fyrirtækja sem eru síðan með innbyggða gagnstæða hagsmuni.