Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 14:28:14 (3503)

2000-12-16 14:28:14# 126. lþ. 52.2 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það fór heldur lítið fyrir 2. umr. um þetta stórmál. Við erum komin inn í 3. umr. og ég vil vekja athygli á helstu þáttum þessa máls en hér er lagt til að skerða fjármuni sem áttu að renna til sjóðs sem stendur straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana. Skerðingin nemur um 130 millj. kr. og eins og áður hefur komið fram í máli minni hlutans þá teljum við að eðlilegra hefði verið að nýta þá fjármuni sem endurbótasjóðurinn átti að fá lögum samkvæmt til að sinna ýmsum brýnum verkefnum sem þarf að sinna á þessu sviði.

En það sem ég tel þó vera miklu alvarlegra er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að leggja niður Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það finnst mér vera miklu stærra mál og vísa þar einnig í álit sem komið hefur frá samtökum fatlaðra, frá Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu sem telja þetta mjög óráðlega ráðstöfun og segja ekki tímabært að afnema fasta tekjustofna vegna málefna fatlaðra.

[14:30]

Í áliti minni hluta efh.- og viðskn. segir m.a. um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að lögin um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, nr. 12/1952, falli úr gildi og í framhaldi af því er lögð til sú breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, að erfðafjárskatturinn renni í ríkissjóð. Ef þessi fyrirætlun ríkisstjórnarinnar verður samþykkt er vandséð hvernig tryggja á fjármagn til margvíslegrar starfsemi fyrir fatlaða, svo sem til hæfingar- og endurhæfingarstofnana, dagþjónustustofnana fatlaðra, áfangastaða, skammtímavistana og verndaðra vinnustaða. Frá árinu 1995 hafa markaðir tekjustofnar til þess að sinna þessum verkefnum verið skertir um 1,8 milljarða króna. Sú skerðing er með öllu óskiljanleg í ljósi þess að enn eru langir biðlistar eftir ýmsum þjónustuúrræðum fyrir fatlaða og enn er langt í land að þessi hópur fólks búi við jafnan rétt á ýmsum sviðum þjóðfélagsins sem stjórnvöldum ber þó skylda til að tryggja.`` --- Síðan er vitnað í það sem ég áður nefndi: --- ,,Á meðan svo er tekur minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar undir efasemdir sem fram hafa komið frá samtökum fatlaðra, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands þess efnis að ekki sé tímabært að afnema fasta tekjustofna vegna málefna fatlaðra.``

Það er margt mjög óljóst um framtíð þeirra málaflokka sem hér var vikið að. Hæstv. félmrh. hefur upplýst á Alþingi að hann hafi gert samning við hússjóð Öryrkjabandalagsins. Svo er að skilja að fara eigi inn í gerbreytt fyrirkomulag þar, en sá háttur hefur verið hafður á fram til þessa að aðilar á borð við Öryrkjabandalagið sem reka leiguhúsnæði fyrir skjólstæðinga sína hafa fengið stuðninginn í formi lágra vaxta. Fyrir fáeinum árum voru vextir í félagslegu húsnæði 1%. Þeir voru síðan hækkaðir upp í 2,4% og síðan skriðu þeir yfir 3% markið, ég held þeir hafi farið í 3,1%. Nú er talað um að fara með alla þessa vexti upp í markaðsvexti eða upp undir markaðsvexti. Menn hafa verið að tala um vexti á lánum til félagslegs leiguhúsnæðis einhvers staðar rétt undir 5%. Vextir á húsbréfunum eru núna 5,1% og við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um verðtryggð lán. Við getum hæglega bætt ofan á 5% þarna og liggjum þar í 5--6% ávöxtun. Reyndar eru vextirnir af húsbréfunum enn hærri þegar allt er skoðað og afföllin eru metin inn í dæmið. Þau eru núna í kringum 10% og samkvæmt upplýsingum hæstv. félmrh. líta þeir svo á að í reynd beri húsbréfin 5,6% raunávöxtun, sem eru háir vextir og allt of háir vextir. Inn í þetta kerfi ætla menn að fara með allt félagslegt húsnæði og þar með félagslegt leiguhúsnæði. Ef það er rétt skilið er hugsunin sú að aðilar á borð við Öryrkjabandalagið eða hússjóður Öryrkjabandalagsins reisi húsnæði. Talað hefur verið um að stofna um þetta hlutafélög sem leigi síðan skjólstæðingum sínum sem borga þá væntanlega hærri leigu en þeir hafa gert og þannig nái menn þessum peningum inn.

Þetta eru menn að gera án þess að nokkrar umræður hafi farið fram um það. Ég tók eftir því í blaðagrein sem hæstv. félmrh. skrifaði í Morgunblaðið fyrir fáeinum dögum um húsnæðiskerfið, og þar á meðal félagslegar lausnir í húsnæðiskerfinu, þá vísaði hann þar í heimildarákvæði í lögunum, að í lögum væru heimildarákvæði til að gera hitt og þetta. En þarf ekki að skýra frá því á hvern hátt slíkar heimildir eigi að nýta og hvaða fjárhagslegar skuldbindingar fylgi þeim? Þessi umræða hefur ekki farið fram. En menn ætla hér að stinga sér til sunds og afnema Framkvæmdasjóð fatlaðra gegn mjög eindregnum mótmælum þeirra samtaka sem hlut eiga að máli, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins, sem telja þetta engan veginn tímabæra ráðstöfun. Og ætlum við að láta þetta gerast? Á að afnema Framkvæmdasjóð fatlaðra?

Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvernig hugsunarhátturinn í landinu er að breytast og hvað við þurfum að gera til að snúa honum að nýju inn í uppbyggilegri farveg. Ég vitnaði í hæstv. forsrh. sem talaði um eignagleðina, að við þyrftum að örva eignagleðina og þar er hann að sjálfsögðu að tala um græðgina, að við eigum að hugsa um það frá morgni til kvölds hvað við getum grætt mikið og hagnast mikið þennan daginn og hvað við verðum búin að græða mikið í kvöld þegar við göngum til náða. Annars vegar er þetta sjónarmið og þessi hugsun. Ég gerði mér það til gamans að fletta upp á grg. með frv. um erfðafjárskatt frá 1952. Það hét frv. til laga um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. Í grg. þess segir, með leyfi forseta:

,,Við Íslendingar höfum ekki efni á því að láta nokkurn mann, sem eitthvað getur unnið, sitja auðum höndum vegna skorts á hentugum verkefnum og vinnustað. Vinnuheimili kosta mikið fé. Til vinnustöðva með nauðsynlegum tækjum og útbúnaði öllum þarf og mjög veruleg stofnfjárframlög. Er því nauðsynlegt, ef tryggja skal framkvæmdir, að sjá fyrir ákveðnum tekjustofni í þessu skyni. Erfðafjárskatturinn ásamt arfahluta ríkissjóðs er í frv. til fjárlaga fyrir 1952 áætlaður 300 þús. krónur. Þess má þó sennilega vænta að hann reynist nokkuð hærri,`` --- og síðan er farið nánar út í það.

Menn segja í þessari grg. að hér megi engu til spara og hér þurfi að standa myndarlega að verki. Ég er að vísa í þau lög og þann sjóð sem við erum núna að afnema, Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þessi sjóður hefur reynst fötluðum og málefnum og hagsmunum þeirra mikil trygging. En ríkisstjórninni hefur þessi sjóður reynst erfiður, hann hefur verið pólitískt erfiður vegna þess að eins og hér kom fram hefur hann verið skertur frá 1995 um 1,8 milljarða kr. Þetta hefur alltaf gerst við umræðu um fjárlög. Á þessum tíma árs höfum við fengið frv. í formi svokallaðs bandorms þar sem slík skerðing er framkvæmd og ákveðin. Þetta hefur valdið pólitískum úlfaþyt og ríkisstjórn og ráðherrar hafa þurft að standa frammi fyrir eigin verkum og frammi fyrir þjóðinni og réttlæta þennan niðurskurð og þeim hefur reynst það erfitt.

Hvað gera þeir þá? Þá afnema þeir náttúrlega bara sjóðinn og segja að þetta sé svo nútímalegt og miklu betra bókhald og eðlilegra að þetta sé ákveðið á fjárlögum ár hvert, enda séu þeir hvort eð er alltaf að skerða framlög í hann, það sé háð ákvörðun þeirra. En með því að gera það með þessum hætti komast þeir hjá hinum pólitísku erfiðleikum sem þeir hafa staðið frammi fyrir árlega undanfarin ár þegar þeir hafa tekið tæpa 2 milljarða út úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Og þetta vilja þeir losna við og það gera þeir með því að afnema sjóðinn.

En á ekkert að hlusta á fatlaða? Á ekkert að hlusta á Þroskahjálp? Á ekkert að hlusta á Öryrkjabandalagið? Ætlar þingið og meiri hluti þingsins að láta þetta yfir sig ganga? Mér finnst þetta vera stóralvarlegt mál og þetta er alvarlegra fyrir þá sök að þessir málaflokkar og þessi málefni eru í mikilli óvissu. Við vitum ekki hvernig ríkið og ríkissjóður ætlar að fjármagna húsnæði fyrir fatlaða, húsnæði sem hefur verið fjármagnað að hluta til úr þessum sjóði. Hvernig á að standa að þeim málum? Finnst mönnum ekki eðlilegt að við fáum svör við því áður en við samþykkjum þessi lög? Mér finnst það. Mér finnst þetta jaðra við hneyksli, alla vega eru það hneykslanleg vinnubrögð að afgreiða frv. sem ekki aðeins skerðir framlag til þessara mála heldur leggur sjóðinn af.

Þótt ég mótmæli, og við gerum það í stjórnarandstöðunni, skerðingu til hússjóðsins eða sjóðsins sem fjármagnar endurbætur á menningarhúsnæði, það er slæmt og við mótmælum því, skerðingu um 130 millj. kr., þá er það miklu alvarlegra mál að Framkvæmdasjóður fatlaðra sé lagður niður með þessum hætti. Ég vil undir lok máls míns ítreka mótmæli mín gegn þessu. Við greiddum atkvæði gegn frv. við 2. umr. fyrr í dag og munum að sjálfsögðu leggjast gegn því, en ég ætla að leyfa mér að höfða til stjórnarmeirihlutans einnig og samvisku hans að hann a.m.k. fresti þessu máli og íhugi það nánar og mér finnst það vera lágmarkskrafa að þingið viti nákvæmlega hvernig á að standa straum af kostnaði við framkvæmdir sem áður voru fjármagnaðar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.