Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:54:16 (3509)

2000-12-16 15:54:16# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur ætla ég að fara í andsvar við hv. þm. vegna ummæla um söluhagnað og stofnun hlutafélaga til þess að komast hjá greiðslu tekjuskatts.

Áður en fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var söluhagnaður skattlagður eins og aðrar tekjur. Þá seldi ekki nokkur einasti maður og tekjur ríkissjóðs voru í heild af þeim stofni um 200 millj. kr., eftir minni. Núna gefur þessi skattur 1.500 millj. kr.

Þess vegna spyr ég hv. þm.: Getur verið að lækkun skattprósentunnar úr 47% niður í 10% valdi því að fólk sé tilbúið til að selja, sem ekki seldi áður? Og getur verið að það að hafa mörk á heimild til að skattleggja með fjármagnstekjuskatti, 10%, og annað fari í hátekjuskatt valdi því að fólk selji ekki nema það geti frestað og frestunin þýði í rauninni að ríkissjóður hefur tapað 10% skatti af því sem frestað var?

Ég held því fram, herra forseti, að tekjur ríkissjóðs hefðu orðið meiri ef ekki hefðu verið þessi hámörk á heimild til fjármagnstekjuskatts og frestunarheimild.

Síðan vil ég spyrja hv. þm. enn einu sinni: Maður sem á fyrirtæki og græðir hundraðkall borgar fyrst 30 krónur í skatt af hagnaði, þá á hann 70 krónur eftir. Af þeim borgar hann 10% fjármagnstekjuskatt og það eru samtals 37 krónur, þ.e. 37% sem er mjög svipað og hann borgar í tekjuskatt. Þess vegna furða ég mig á því að ummæli skattrannsóknarstjóra hafi ekki verið rökrædd í nefndinni.