Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 16:01:47 (3513)

2000-12-16 16:01:47# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er fjallað um víðfeðm efni. Þar er fjallað um barnabætur, vaxtabætur, sjómannaafslátt, eignarskatt, tekjuskatt, hátekjuskatt, fjármagnstekjuskatt af vöxtum, húsaleigu, arði og söluhagnaði. Ég hef eflaust gleymt einhverju.

Svo er lagt fram hér frv. til laga um breyting á þessum lögum. Þar er ekki orð um hátekjuskatt enda átti hann samkvæmt ákvörðun Alþingis að renna út um þessi áramót. Samkvæmt ákvörðun Alþingis er hátekjuskatturinn tímabundinn og átti að renna út um þessi áramót.

Í meðförum nefndarinnar, hv. efh.- og viðskn., sem ég á nú ekki sæti í, er tekin ákvörðun um að setja inn ákvæði um hátekjuskattinn og framlengja hann um eitt ár. Ég er ekki sáttur við þessa málsmeðferð, herra forseti, og ég er ekki sáttur við að hátekjuskatturinn sem er í rauninni skattur á duglegt fólk, ekkert endilega með mjög háar tekjur eins og hér kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, lendi á fólki sem er bara með góðar miðlungstekjur, 300 þús. kr. eða þaðan af hærra, ekki einu sinni 300 þús. kr. á mánuði Ég er ekki sáttur við að það fólk lendi í hátekjuskatti. Þetta er margt duglegt fjölskyldufólk sem er að koma yfir sig húsnæði, þarf að vinna mikið, er með mörg börn og hefur mikil útgjöld og þessi hópur manna er að borga hátekjuskatt og hann skilur það ekki. (Gripið fram í.) Það var sagt hér í frammíkalli að það mætti hækka mörkin en það þýðir að tekjur ríkissjóðs hraðminnka.

Þessi skattur er nefnilega ekkert annað en öfundarskattur. Hann gefur ríkissjóði engar tekjur. (Gripið fram í: Nú?) Ekki ef mörkin eru hækkuð t.d. upp í 4 millj. kr. árstekjur. Þá eru tekjur ríkissjóðs orðnar sáralitlar og tekur því ekki að hafa þennan skatt yfirleitt. En sumir vilja skattleggja bara til að skattleggja, til að ná í háar tekjur sem þeir sjá ofsjónum yfir. Þetta er öfundarskattur. (Gripið fram í.) Ég tel nefnilega að það sé miklu meira mál að ríkissjóður hafi tekjur til að fjármagna velferðarkerfið heldur en að hann sé að halda niðri atvinnulífinu með of háum sköttum því að þessi skattur er ekkert annað en skattur á snilli og dugnað og harðfylgi og mikla vinnu. Við megum ekki gleyma því.

Þetta er sama málið og með söluhagnaðinn. Ef skattur af söluhagnaði er 38% þá selur ekki nokkur einasti maður eignir sínar. Menn bara hanga á þeim áfram öllum til óhagræðis, atvinnulífinu til óhagræðis og þeim sjálfum. Lækkun skatts á söluhagnað niður í 10% hefur gefið ríkissjóði miklu meiri tekjur til þess að fjármagna velferðarkerfið. Og hver er tilgangur skattkerfisins yfirleitt? Er hann til þess að ná í einhverja ríka náunga, sem hafa allt of miklar tekjur, hvað sem það kostar, þó að það gefi ríkissjóði engar tekjur og halda þeim niðri eða er það til þess að ná í tekjur til þess að fjármagna velferðarkerfið svo við getum greitt almennilegan lífeyri til öryrkja og fátæks fólks? Ég held að við þurfum að haga skattkerfinu þannig að það gefi ríkissjóði eins miklar tekjur og mögulegt er. Það er mikilvægt.

Herra forseti. Ég er á móti þessari brtt. hv. efh.- og viðskn., um að framlengja hátekjuskattinn sem Alþingi hafði tekið ákvörðun um að ætti að renna út um þessi áramót. Það var ákvörðun Alþingis, annars hefði hann verið ótímabundinn. En hann er tímabundinn og það er aftur verið að framlengja hann. Það er aftur verið að skattleggja dugnaðinn og snillina. Það er verið að skattleggja fólkið sem vinnur úti á hafi. Það er verið að skattleggja fólkið sem vinnur á hálendinu. Það er verið að skattleggja það fólk sem leggur sig fram um að vinna.