Verðbréfaviðskipti, rafræn eignarskráning verðbréfa og hlutafélög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 16:18:34 (3515)

2000-12-16 16:18:34# 126. lþ. 52.9 fundur 368. mál: #A verðbréfaviðskipti, rafræn eignarskráning verðbréfa og hlutafélög# (safnskráning) frv. 164/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, eins lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og síðast en ekki síst lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Þetta frv. er flutt af efh.- og viðskn. og tengist frv. því um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti sem hér hefur verið til umræðu í dag.

Málið snýst um að opna fyrir svokallaða safnskráningu verðbréfa. Með safnskráningu er átt við þjónustu verðbréfafyrirtækis sem felur í sér að fyrirtækinu er heimilt að halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á eigin reikningi, svokölluðum safnreikningi, og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa.

Í 2. gr. frv. er fjallað um heimildir fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og hvernig þau skulu fara með slíka safnreikninga. Þau skulu halda fjármunum og verðbréfum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins og fjármunir viðskiptamanns skulu varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi.

Síðan bætast við 19. gr. í verðbréfaviðskiptalögunum þrjár málsgreinar, sem mundu vera þannig að verðbréfafyrirtæki væri heimilt að varðveita verðbréf í eigu viðskiptamanna sinna á safnreikningi enda hafi fyrirtækið gert viðskiptamanninum grein fyrir réttaráhrifum þess og hann veitt samþykki sitt og það þarf að halda skrá yfir eignarhlut hvers viðskiptamanns fyrir sig.

Ef bú verðbréfafyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta eða farið er fram á greiðslustöðvun, slit eða eitthvað slíkt, getur viðskiptamaðurinn tekið verðbréf sín út af safnreikningi, en ráðherra setur reglugerð um þessa skráningu.

Í lögum um breytingu á rafrænni eignarskráningu verðbréfa er gert ráð fyrir að endurorða 1. mgr. 24. gr. laganna og þar kemur fram að á hvern reikning skal skrá reikningsstofnun eða reikningsstofnanir sem hafa heimild til eignarskráningar á reikninginn. Reikningsstofnun er heimilt að annast safnskráningu á reikning í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Það þarf að halda slíkum safnreikningum sér þannig að þeir séu auðkenndir sem slíkir.

Breytingin sem lögð er til á lögunum um hlutafélög er þannig að í 2. mgr. 30. gr. hlutafjárlaganna sé það tekið inn að í hlutaskrá skulu hlutir eða hlutabréf skráð í númeraröð og fyrir sérhvern hlut eða hlutabréf tekið fram nafn eiganda, kennitölu og heimilisfang eða þeirra sem heimild hafa til safnskráningar. Í hluthafaskrá er safnskráningin þannig að verðbréfafyrirtækið er skráð sem eigandi bréfanna en ekki viðkomandi einstaklingur.

Með frv. þessu fylgja athugasemdir. Efh.- og viðskn. leggur þetta frv. fram og óskar eftir því að það verði afgreitt hér. Ekki er gerð tillaga um að málinu verði vísað til nefndar heldur beint til 2. umr. enda flytur nefndin málið.