Tollalög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 17:01:23 (3519)

2000-12-16 17:01:23# 126. lþ. 52.8 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um hve hv. þm. talaði af mikilli virðingu um fyrrv. fjmrh. og hvað hún las mikið upp úr ræðum hans og álitum fyrr á árum. Ég er viss um að í framtíðinni mun hv. þm. lesa jafnmikið og af jafnmikilli virðingu úr ræðum núv. hæstv. fjmrh.

En ég hafna því algjörlega að það sé á nokkurn hátt verið að standa ólýðræðislega að málinu. Þetta er mjög einföld breyting, hún liggur algjörlega ljóst fyrir. Verið er að flytja þarna til ákveðin verkefni og þeim verður öllum sinnt. Í sjálfu sér er ekki verið að setja eitt stjórnvald yfir annað, það er verið að nýta þá sérþekkingu sem er til staðar hjá tollstjóranum í Reykjavík sem er, eins og hv. þm. veit, eina sérhæfða tollstjórambættið. Það eru sýslumenn sem gegna hlutverkum tollstjóra í öðrum umdæmum. Eftirlitsþátturinn er þannig að það er ráðherra sem hefur eftirlit með þessum tollstjórum og að sjálfsögðu þar með tollstjóranum í Reykjavík en hlutverk tollstjórans í Reykjavík verður fyrst og fremst þjónustuhlutverk.

Uppbyggingin á embætti ríkistollstjóra á sínum tíma var mjög þörf og nauðsynleg í því skyni að bæta þjónustu tollgæslunnar og tollstjóranna. Nú er kominn ákveðinn áfangi í því efni og af þeim ástæðum er ágætistækifæri til að breyta þarna til og ég tel það fullkomlega eðlilegt.