Tollalög

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 17:05:37 (3521)

2000-12-16 17:05:37# 126. lþ. 52.8 fundur 333. mál: #A tollalög# (ríkistollstjóri) frv. 155/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka enn og aftur það álit mitt að ég tel að það hafi verið fullkomlega lýðræðislega staðið að þessu máli í meðferð nefndarinnar. Það sem hér liggur fyrir er breyting sem ég get ekki séð annað en að sé mjög einföld, algjörlega skýr og á margan hátt skynsamleg.

Hlutverk tollstjórans í Reykjavík gagnvart sýslumönnunum og störfum þeirra er fyrst og fremst þjónustuhlutverk. Eftirlit tollstjórans í Reykjavík felst fyrst og fremst í eftirliti með greiðendum og viðskiptavinum, ekki með sjálfum sér, og það eru slíkar breytingar sem verða gerðar í þessum lögum.

Ríkistollstjóraembættið er búið að gera stórkostlega hluti í uppbyggingu á rafrænum skeytum og rafrænum samskiptum milli fyrirtækja og tollsins og þjónusta við viðskiptavini tollsins hefur snarbatnað á undanförnum árum. Segja má að lokaáfanginn sé þar í höfn og því verður það kerfi kannski í framtíðinni fremur spurning um viðhald en uppbyggingu. Þetta er í sífelldri þróun en með því að flytja þann þátt yfir í þetta sérhæfða tollstjóraembætti, sem tollstjóraembættið í Reykjavík er, þá tel ég að þessu sé mjög vel fyrir komið.

Ég tel því að sú breyting sem verið er að gera sé alveg fullkomlega eðlileg. Ég tel mig þekkja þetta mál og tollstjóraembættið í Reykjavík og embætti ríkistollstjóra allvel. Ég tel þess vegna að ég geti verið mjög öruggur í því sem ég er að gera við að samþykkja þetta mál.