Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 18:04:45 (3529)

2000-12-16 18:04:45# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er verið að leggja til að lækka skatthlutfall á söluhagnaði hlutabréfa umfram tiltekin mörk úr almennu hlutfalli niður í 10%. Segja má með sanni að þetta sé jólagjöfin í ár til þeirra sem ríkisstjórnin hefur helst talið að þyrftu á slíkri heimsendingu að halda, þ.e. stærstu fjármagnseigenda í landinu. Með þessu er Ísland að skipa sér í algera sérstöðu hvað varðar skattlagningu á gróða manna í slíkum viðskiptum. Í öllum löndum í kringum okkur er þetta skatthlutfall til muna hærra, oft þrepaskipt og hlutfallið á bilinu 20--40%. Hér er verið að búa til sérstakt gósenland fyrir þá sem hafa umtalsverðan gróða af hlutabréfaeign og arð af fjármagnstekjum. Það má vera mönnum umhugsunarefni í ljósi þess hvernig búið er að ýmsum öðrum hópum í samfélaginu.

Ég lýsi því yfir fyrir mína hönd, herra forseti, að baráttu minni fyrir því að þarna sé komið á eðlilegri skattlagningu er ekki lokið.