Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 8  —  8. mál.




Frumvarp til laga



um dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum .

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson .



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og
sparisjóði, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað 3.–6. mgr. 10. gr. og 11. og 12. gr. kemur ný grein, er verður 11. gr., sem orðast svo:
    Einstökum aðilum, öðrum en ríkissjóði, og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum er óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka. Viðskiptabanki skal reglulega tilkynna Fjármálaeftirlitinu um samsetningu hluthafa og án tafar ef eignarhlutur einstaks aðila fer yfir fyrrgreind mörk. Hluthafi í viðskiptabanka skal tafarlaust gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi hann ástæðu til að ætla að eign hans í viðskiptabanka kunni að yfirstíga fyrrgreind mörk.
    Skyldir aðilar og/eða fjárhagslega tengdir skulu teljast:
     1.      Hjón eða sambýlisaðilar.
     2.      Skyldmenni í beinan legg, bræður eða systur, systkinabörn, systkini föður eða móður eða tengdir aðilar með sama hætti vegna ættleiðingar. Foreldrar, börn, bræður og/eða systur maka eða sambýlisaðila.
     3.      Samstæða félaga, móðurfélög og dótturfélög.
     4.      Ef einstakur aðili (einstaklingur eða lögaðili) á meira en 35% eignarhlut eða atkvæðisrétt í lögaðila eða ef einstakur aðili eða skyldir aðilar eiga samanlagt meira en 35% eignarhlut eða atkvæðisrétt í tveimur lögaðilum eða fleiri skulu þeir aðilar teljast fjárhagslega tengdir.
    Nú fer eignarhlutur einstaks aðila eða skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila yfir þau mörk sem tilgreind eru í 1. mgr. vegna atvika sem hlutaðeigandi fær ekki við ráðið og skal viðkomandi aðili eða aðilar þá svo fljótt sem við verður komið, og eigi síðar en innan sex mánaða, gera ráðstafanir til að samræma eignarhlut sinn nefndum ákvæðum 1. mgr. Ráðherra getur að fenginni tillögu Fjármálaeftirlitsins ákveðið að eignarhlut sem svo er til kominn og er umfram mörk 1. mgr. fylgi eigi atkvæðisréttur svo lengi sem það ástand varir.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en
viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 3. gr. bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., sem orðast svo:
    Um hámarkshlutafjáreign einstakra aðila og skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila í lánastofnun skulu gilda ákvæði 11. gr. laga nr. 113/1996.

III. KAFLI
Gildistaka o.fl.
3. gr.

    Ráðherra skal að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Sé eignarhlutur einstakra aðila eða skyldra og/eða fjárhagslega tengdra aðila í viðskiptabanka eða lánastofnun fyrir ofan mörk 1. efnismgr. 1. gr. laga þessara við gildistöku þeirra er ráðherra heimilt að veita hlutaðeigandi allt að tveggja ára aðlögunartíma til að gera fullnægjandi ráðstafanir til að samræma eignarhlut sinn áðurnefndum ákvæðum. Ráðherra getur við slíkar aðstæður beitt ákvæðum 3. efnismgr. 1. gr. laga þessara um takmörkun atkvæðisréttar.

Greinargerð.


     Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi, en varð þá eigi útrætt. Það er nú endurflutt óbreytt. Aðstæður í fjármálaheiminum eru í aðalatriðum óbreyttar að því undanskildu að samruni stofnana og samþjöppun hefur haldið áfram og ber þar auðvitað hæst sameiningu Íslandsbanka og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ekki er síður ástæða til að skoða breytingar af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir í ljósi aukinnar samþjöppunar eða fákeppni á þessum markaði. Óhóflega sterk ítök eða ráðandi staða einstakra aðila í mikilvægustu fjármálastofnunum landsins yrði að sama skapi varasamari sem samkeppni er takmarkaðri. Frumvarpinu fylgdi svohljóðandi greinargerð þegar það var áður flutt:
    „Óþarfi er að fara mörgum orðum um tilefni þessa frumvarps. Mikil umræða hefur verið um sölu á eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og reyndar einnig áður um stofnun þess banka og breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Mikið vantar á að vandað hafi verið til vinnubragða í þessu sambandi þó svo að horft sé fram hjá pólitískum ágreiningi um þessar breytingar sem slíkar. Leikreglur og nauðsynlegar lagabreytingar voru ekki undirbúnar og gerðar fyrir fram. Nú, þegar fyrstu skref í einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna með hlutafjárútboðum hafa verið stigin, tæpur helmingur af eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefur verið seldur og sala á hinum helmingnum er í fullum gangi, blossar upp síðbúin umræða um nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum.
    Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til breytinga á lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., þar sem leitað var eftir heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum, var reyndar fjallað um þetta mál, sjá þskj. 256, 229. mál 123. löggjafarþings. Þar sagði í greinargerð eftirfarandi: „Hefur ríkisstjórnin í því efni haft að leiðarljósi nauðsyn þess að hámarka verðmæti hlutafjár ríkissjóðs í bönkunum, tryggja ódýra, heilsteypta og örugga þjónustu á fjármagnsmarkaði með aukinni samkeppni, og þar af leiðandi hagkvæmari rekstri bankanna, og að tryggja dreifða eignaraðild, en um leið að fá til samstarfs innlenda og erlenda kjölfestufjárfesta sem hraðað geta framþróun fjármagnsmarkaðarins.“
    Ljóst er að þessi orð og önnur sem fallið hafa um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum duga skammt ef vilji er ekki fyrir hendi til að tryggja til frambúðar dreifða eignaraðild. Reglur um hámarkskaup hvers einstaks aðila í frumsölu bréfa eru gagnslitlar ef engar takmarkanir gilda síðan í viðskiptum með sömu bréf á eftirmarkaði. Augljóst er að til þurfa að koma lagaákvæði sem takmarka varanlega hámarkseign einstakra aðila, sambærileg þeim sem þekkt eru víða erlendis og þekkt eru bæði í innlendum og erlendum lögum í ýmsum annars konar tilvikum. Má þar sem dæmi nefna þær takmarkanir sem eru á hámarkseign erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, sérstaklega í sjávarútvegi. Einnig mætti nefna þær breytingar sem gerðar voru nýlega á lögum um stjórn fiskveiða til að sporna við samþjöppun á eignarhaldi veiðiheimilda. Þau lög fela í sér takmörkun á hámarkseign einstakra fyrirtækja eða tengdra aðila í veiðiheimildum í einstökum tegundum og í heild. Í ýmsum nálægum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við eru takmarkanir hvað varðar hámarkseign einstakra aðila í fjármálastofnunum og reyndar ýmsum öðrum greinum, svo sem í fjölmiðlum, vel þekktar.
    Óhjákvæmilegt er að Alþingi taki af skarið í þessu máli og láti á það reyna hvaða innstæður eru fyrir fullyrðingum um nauðsyn þess að dreifa eignaraðild og sporna við samþjöppun á eignarhaldi í mikilvægum innlendum fjármálastofnunum. Viðbúið er að um setningu slíkra reglna geti orðið pólitískar deilur en því verður varla á móti mælt að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að fara varlega í þessum efnum. Slíkar takmarkanir eða reglur er alltaf hægt að rýmka síðar meir ef áhyggjur af samþjöppun og fákeppni reynast ástæðulausar. Varla getur sakað að hafa vaðið fyrir neðan sig. Eins kæmi til greina að skoða rýmri mörk hvað hámarkseign í fjármálastofnun snertir þegar í hlut eiga viðskiptabankar, sparisjóðir eða aðrar lánastofnanir. Gæti það einkum átt við ef bankar eða aðrar lánastofnanir vildu starfrækja þjónustufyrirtæki á fjármálasviði sem hefði starfsleyfi sem lánastofnun. Þær reglur sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru einfaldar en að mati flutningsmanna fullnægjandi til að setja hámarkshlutafjáreign og ítökum einstakra aðila í viðskiptabönkum og öðrum mikilvægum lánastofnunum takmörk.“