Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 28  —  28. mál.




Beiðni um skýrslu



frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um meðferðarstofnanir.

Frá Einari K. Guðfinnssyni, Gunnari Birgissyni, Lúðvík Bergvinssyni,


Hjálmari Árnasyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Þuríði Backman,
Kristjáni Pálssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,
Pétri H. Blöndal og Jóni Bjarnasyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um meðferðarstofnanir. Í skýrslunni komi meðal annars fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:

Yfirlit yfir stofnanir.
     1.      Hvaða stofnanir, þ.m.t. sjúkrahús, njóta framlaga frá hinu opinbera til vímuvarna og bráða- og eftirmeðferðar vímuefnasjúklinga? Hvaða aðrar stofnanir sinna sambærilegum verkefnum án stuðnings hins opinbera?
     2.      Hvar eru þessar stofnanir, skipt eftir kjördæmum?
     3.      Hverjir eru eigendur eða rekstraraðilar þeirra og hvenær hófst starfsemi hverrar um sig?
     4.      Í hvaða tilfellum hefur ríkissjóður verið þátttakandi í rekstri frá upphafi?
     5.      Í hvaða tilfellum kom ríkissjóður inn í reksturinn síðar og hvaða röksemdir lágu að baki slíkri þátttöku?

Fjármál.
     1.      Hver voru rekstrarútgjöld einstakra stofnana frá árinu 1990, framreiknuð til núvirðis, skipt eftir:
                  a.      launum,
                  b.      öðrum rekstrargjöldum,
                  c.      stofnkostnaði?
     2.      Hverjar voru fjárveitingar hins opinbera til einstakra stofnana á þessu tímabili, framreiknaðar til núvirðis, skipt eftir:
                  a.      launum,
                  b.      öðrum rekstargjöldum,
                  c.      stofnkostnaði?
     3.      Hvernig skiptast, á sama tímabili, tekjur einstakra stofnana eftir:
                  a.      föstum fjárveitingum,
                  b.      daggjöldum,
                  c.      framlögum vistmanna,
                  d.      öðru?
     4.      Hver ákveður að einstakar stofnanir skuli teknar á fjárlög og hvaða reglur gilda þar um?
     5.      Hvernig er staðið að ákvörðunum um aukin umsvif þessara stofnana sem leiða til hærri fjárveitinga af fjárlögum?
     6.      Hver er fjöldi stöðugilda hjá einstökum stofnunum?
     7.      Hefur Tryggingastofnun ríkisins greitt kostnað við vímuefnameðferð erlendis síðustu fimm ár? Ef svo er:
                  a.      hvaða stofnanir er um að ræða og hvar eru þær,
                  b.      hversu margir hafa notið þessarar þjónustu, skipt eftir stofnunum,
                  c.      hve mikið hefur verið greitt til einstakra stofnana?

Meðferð.
     1.      Er um að ræða sérhæfingu einstakra stofnana, þ.e. sinna þær aðeins tilteknum aldurshópum, vímuefnaflokkum, meðferðastigi, t.d. eftirmeðferð, eða bjóða upp á mismunandi meðferðarúrræði?
     2.      Hvaða greining á sér stað áður en sjúklingur er lagður inn á stofnun og hver er verkferillinn innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, þ.e. hvaða aðilar koma við sögu?
     3.      Hver er meðalmeðferðartími sjúklings, skipt eftir helstu vímuefnaflokkum og stofnunum?
     4.      Hver hefur árangur af meðferð verið síðustu fimm ár, skipt eftir helstu vímuefnaflokkum og stofnunum?

    Beiðni þessi var lögð fram á 125. löggjafarþingi en var þá eigi svarað og er hún því lögð fram að nýju.