Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 74  —  74. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli sækja námskeið um meðferð matvæla þar sem sérstök áhersla er lögð á innra eftirlit og öryggi matvæla.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Eftirlitsaðilar skulu einnig með öðrum hætti vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og skulu grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu.

2. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Eftirlitsaðilar og matvælafyrirtæki skulu tilkynna til hlutaðeigandi stofnana, sem eru ráðuneytum til ráðgjafar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna, ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu á matvælum ef þeir greina í matvælum örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Gjaldtaka Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralæknis skal taka mið af kostnaði við undirbúning, ferð, skoðun, frágang, sýnatöku og rannsókn sýna vegna matvælaeftirlits.
     b.      Í stað orðsins „heilbrigðiseftirlit“ í 2. mgr. kemur: mengunarvarnir.

4. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Hlutaðeigandi ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða skv. VIII. og IX. kafla laganna, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna um heimild til notkunar aukefna og annarra slíkra leyfisveitinga. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

5. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Gjaldtaka skal taka mið af kostnaði við rannsókn og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sem kunnugt er komu upp alvarleg tilvik kampýlóbakter-sýkinga árið 1999 sem rakin voru til neyslu matvæla. Í framhaldi af þessu var gerð úttekt á stöðu mála á vegum umhverfisráðuneytis í samvinnu við landbúnaðarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og stofnanir þessara ráðuneyta, þ.e. Hollustuvernd ríkisins, embætti yfirdýralæknis og landlæknisembættið. Var verkefninu skipt í tvennt. Annars vegar var tekin saman skýrsla um útbreiðslu kampýlóbakter í umhverfi, húsdýrum og matvælum og orsakir sýkinga í mönnum ásamt tillögum til aðgerða sem skilað var til ráðuneytisins í nóvember sl. Hins vegar voru settar fram tillögur um hvernig bregðast skyldi við og voru þær unnar á vegum nefndar umhverfisráðuneytisins sem starfaði í desember sl. Í tillögum nefndarinnar er farið yfir nauðsynlegar aðgerðir sem grípa þarf til á vegum umhverfisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis. Þar koma fram tillögur sem miða að því að draga úr sýkingum í mönnum af völdum kampýlóbakter með hliðsjón af raunhæfum og tímasettum aðgerðum. Aðgerðirnar beinast einkum að því að draga úr tíðni kampýlóbakter í afurðum alifugla, með því m.a. að fækka menguðum eldishópum alifugla, fyrirbyggja krosssmit eins og hægt er og auka eftirlit og vöktun, en einnig að auka fræðslu til almennings og matvælafyrirtækja um smitleiðir og rétta meðferð matvæla.
    Meðal tillagna nefndarinnar eru breytingar sem hér eru lagðar til á lögum nr. 93/1995, um matvæli. Ráðuneytið telur að ef tryggja á framgang þeirra meginmarkmiða sem fram koma í tillögum nefndarinnar, að ná niður kampýlóbakter-mengun í matvælum og sýkingum af völdum kampýlóbakter í mönnum, með því m.a. að auka fræðslu, eftirlit og vöktun, sé nauðsynlegt að breytingar á lögum um matvæli nái fram að ganga. Mikilvægt er að hægt sé að grípa til þess ráðs að setja reglur um að starfsfólk sem starfar við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli hafa til að bera grundvallarþekkingu á meðferð matvæla, ekki síst með hliðsjón af öryggi þeirra og innra eftirliti fyrirtækjanna. Slík ákvæði er t.d. að finna í nýlegum matvælalögum í Danmörku og hefur verið fylgt þar eftir með námskeiðum fyrir starfsfólk matvælafyrirtækja. Enn fremur er brýnt að sú ótvíræða skylda verði lögð á eftirlitsaðila að þeir reyni að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og grípi til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu. Þetta dregur á engan hátt úr skyldum þeirra sem eru ábyrgir fyrir framleiðslu og dreifingu matvæla, en þeim ber að tryggja eins og unnt er að matvæli valdi ekki heilsutjóni. Í þeim lögum sem eftirlitsaðilar starfa eftir, þ.e. heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna, héraðsdýralæknar og Fiskistofa, er að finna ýmiss konar þvingunarúrræði sem hlutaðeigandi eftirlitsaðila er ætlað að beita í slíkum tilvikum. Hins vegar hefur skort ákvæði sem kveða afdráttarlaust á um skyldur eftirlitsaðila til að sinna forvörnum og rannsókn mála sem upp kunna að koma vegna matarsjúkdóma. Enn fremur er nauðsynlegt að koma á tilkynningarskyldu þeirra aðila sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla, eftirlit og rannsóknir og greiningu á matvælum þannig að hlutaðeigandi stofnanir fái nauðsynlegar upplýsingar í tíma og geti þannig unnið að forvörnum. Mikilvægt er líka að tengja ákvæði um tilkynningarskyldu við framkvæmd sóttvarnalaga, nr. 19/1997, enda er eftirlitsaðilum enn fremur ætlað hlutverk samkvæmt þeim lögum, með tilliti til tilkynningarskyldra sjúkdóma í mönnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að hlutaðeigandi ráðherra, sem getur verið umhverfisráðherra, landbúnaðarráðherra eða sjávarútvegsráðherra eftir því um hvers konar eftirlit er að ræða, geti sett reglur þess efnis að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla sæki námskeið um meðferð matvæla. Á slíkum námskeiðum verður lögð sérstök áhersla á innra eftirlit og öryggi matvæla. Námskeið geta verið á vegum opinberra aðila, en einnig kemur vel til greina að aðrir sjái um framkvæmd þeirra. Mikið skortir á að þeir sem starfa við matvælaframleiðslu hér á landi hafi til þess nægjanlega þekkingu eða hljóti fullnægjandi fræðslu áður en þeir taka til starfa. Ekki er óalgengt að starfsfólk sé ráðið og sett í störf við matvælavinnslu án nokkurs undirbúnings. Með hliðsjón af þessu er nauðsynlegt að hlutaðeigandi ráðherra geti sett reglur til þess að tryggja þekkingu starfsfólks með hliðsjón af öryggi matvæla, reynist slíkt nauðsynlegt, þ.e. ef matvælafyrirtæki gera það ekki sjálf.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að eftirlitsaðilar geti að höfðu samráði við landlækni gert kröfu um reglubundna heilsufarsskoðun starfsfólks. Lagt er til að eftirlitsaðilar skuli einnig með öðrum hætti vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og skuli grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu. Í þessu tilviki er rétt að benda á að eftirlitsaðilar geta með stoð í matvælalögum og öðrum lögum sem þeir starfa samkvæmt gripið til ýmiss konar þvingunaraðgerða. Með þeim viðbótarákvæðum sem hér eru lögð til er hins vegar tekinn af allur vafi um skyldu þessara aðila til að vinna að forvörnum og að því að upplýsa mál sem upp kunna að koma þannig að gripið verði til viðeigandi ráðstafana eins fljótt og kostur er og áður en í óefni er komið.

Um 2. gr.


    Nokkuð hefur þótt skorta á að ljóst væri hvaða skyldur þeir sem annast rannsóknir og greiningu á matvælum hafi til að tilkynna til hlutaðeigandi stofnana ef hætta getur stafað af neyslu matvæla. Slík tilkynningarskylda er nauðsynleg ef niðurstöður greininga eða rannsókna gefa til kynna að hætta sé á heilsutjóni. Enn fremur er nauðsynlegt að takmarka tilkynningarskyldu rannsóknar- og greiningaraðila við þær örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Mjög mikilvægt er að framangreindir aðilar hafi slíka tilkynningarskyldu enda er um að ræða sjúkdóma sem ógnað geta almannaheill. Um leið er eðlilegt að þeim sem sinna opinberu eftirliti og þeim sem eiga að sinna innra eftirliti í matvælafyrirtækjum beri skylda til að upplýsa um gögn sem þeir hafa undir höndum eða aðrar ástæður sem geta bent til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Með því að taka af allan vafa um skyldu til að skila gögnum eða veita upplýsingar, sé talin hætta á heilsutjóni, á að vera hægt að grípa fyrr til ráðstafana á vegum hlutaðeigandi eftirlitsaðila og stofnana. Ákvæði þessi munu gilda jafnt um allar rannsóknastofur, óháð því hvort þær eru reknar á vegum hins opinbera eða eru í einkaeign og hvort rannsókn eða greining sýna er gerð fyrir matvælafyrirtæki, aðra einkaaðila eða opinbera aðila. Með sama hætti á tilkynningarskylda jafnt við um opinberan eftirlitsaðila og sjálfstætt starfandi skoðunarstofu.

Um 3. gr.


    Í a-lið er lagt til að kveðið verði á um þann kostnað sem gjaldtöku vegna opinbers eftirlits með matvælum er ætlað að mæta. Sú breyting sem hér er lögð til er gerð til samræmis við kröfur sem gerðar eru til lagaheimilda fyrir þjónustugjöldum.
    Í 2. gr. reglugerðar nr. 522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, er opinbert eftirlit skilgreint sem eftirlit á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um matvæli og stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum lögum samkvæmt, sbr. 22. gr. laga um matvæli. Eftirlit Hollustuverndar ríkisins felst m.a. í skoðun umbúðamerkinga og efnainnihalds innfluttra matvæla. Yfirdýralæknir hefur eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða, smitsjúkdómum búfjár, meðferð, skoðun og mati á sláturafurðum og heilbrigðisskoðun eldisfisks, sbr. 6. gr. laga um matvæli. Nánar er kveðið á um eftirlitið í lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, og í lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum. Fiskistofa hefur eftirlit með framleiðslu og dreifingu sjávarafurða, sbr. 7. gr. laga um matvæli, en í lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, er kveðið nánar á um eftirlitið og hvernig því skuli háttað.
    Á grundvelli 25. gr. gildandi laga hefur landbúnaðarráðuneytið sett gjaldskrá fyrir eftirlit og þjónustuverkefni dýralækna sem annast opinber eftirlitsstörf, nr. 140/2000.
    Í b-lið er lagt til að gerð verði breyting á tilvísun til laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, þar sem þau lög voru felld úr gildi með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Um 4. og 5. gr.


    Í greinunum er lagt til að kveðið verði á um þann kostnað sem gjaldtaka samkvæmt greinunum er ætlað að mæta. Þau gjöld sem hér er mælt fyrir um eru þjónustugjöld og er sú breyting sem hér er lögð til í samræmi við kröfur sem gerðar eru til heimilda til töku þjónustugjalda.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að tryggja gæði matvæla og samhæfa aðgerðir stjórnvalda sem sjá um matvælaeftirlit. Frumvarpið kveður á um auknar rannsóknir, greiningar, námskeið, þjálfun og sértækar ráðstafanir. Gert er ráð fyrir að aukinn kostnaður verði greiddur af framleiðendum.
    Verði frumvarpið að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.