Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 183  —  176. mál.




Frumvarp til laga



um Námsmatsstofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Námsmatsstofnun er sjálfstæð stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.
    Hlutverk stofnunarinnar er að annast framkvæmd samræmdra prófa á grunn- og framhaldsskólastigi, svo sem mælt er fyrir um í lögum, reglugerðum og aðalnámskrám, auk annarra verkefna á sviði námsmats og rannsókna sem tengjast því svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

2. gr.

    Helstu verkefni Námsmatsstofnunar eru að:
     a.      sjá um samningu, framkvæmd og úrvinnslu samræmdra prófa og könnunarprófa í grunn- og framhaldsskólum,
     b.      sjá um birtingu niðurstaðna samræmdra prófa gagnvart nemendum, skólum og fræðsluyfirvöldum, útgáfu heildaryfirlits með niðurstöðum í hverju prófi og prófþáttum eftir skólum og á landsvísu og öðrum upplýsingum sem skýra niðurstöður samræmdra prófa,
     c.      miðla upplýsingum til skóla um nýtingu og túlkun á niðurstöðum prófa í einstökum skólum þannig að þau nýtist til þróunar skólastarfs þar og
     d.      vinna að námsmatsrannsóknum og samanburðarrannsóknum við árangur skólastarfs í öðrum löndum.
    Stofnunin getur unnið að öðrum verkefnum á sviði námsmats og prófagerðar á grundvelli sérstakra samninga við menntamálaráðuneytið og aðra aðila.


3. gr.

    Forstöðumaður Námsmatsstofnunar er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaðurinn annast yfirstjórn stofnunarinnar og daglegan rekstur, ber ábyrgð á fjárreiðum hennar og ræður aðra starfsmenn. Forstöðumaðurinn kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar út á við.

4. gr.

    Forstöðumanni er heimilt að semja við aðra aðila um að sinna þjónustu sem stofnuninni er að lögum falið að annast.

5. gr.

    Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn stofnunarinnar til fjögurra ára í senn svo sem hér segir: einn samkvæmt tilnefningu Samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Stjórnin staðfestir starfsáætlanir stofnunarinnar og fylgist með framkvæmd þeirra. Stjórnin veitir menntamálaráðherra umsögn um ráðningu forstöðumanns.

6. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 76/1993, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Umboð núverandi ráðgjafarnefndar Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála fellur niður við gildistöku laga þessara.
    Núverandi forstöðumaður Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála gegnir embætti sínu út yfirstandandi skipunartímabil sitt. Að því loknu skal skipa forstöðumann Námsmatsstofnunar í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Starfsmenn Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála við gildistöku laga þessara skulu halda óbreyttum starfskjörum.
    Námsmatsstofnun tekur við skuldbindingum sem gerðar hafa verið í nafni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Þótti nauðsynlegt að endurskoða lög nr. 76/1993, um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, með það fyrir augum að skipulag stofnunarinnar taki mið af nútímastjórnsýslu. Þá þótti enn fremur rétt að endurskoða hlutverk stofnunarinnar í samræmi við lagaþróun undanfarinna ára. Þá hefur við samningu þessa frumvarps verið höfð hliðsjón af álitsgerð, „Mat á starfsemi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála“, sem stýrihópur skipaður af menntamálaráðherra skilaði til ráðherra í febrúarmánuði 1999. Er niðurstaða álitsgerðarinnar fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Skipta má verkefnum sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur haft með höndum í tvennt: annars vegar rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála og hins vegar námsmat, þ.e. prófagerð og framkvæmd samræmdra prófa. Undanfarin ár hafa átt sér stað veigamiklar breytingar á löggjöf um menntamál. Sett hafa verið ný heildarlög um háskóla, nr. 136/1997. Innan Kennaraháskóla Íslands hefur menntun grunnskólakennara, leikskólakennara, íþróttakennara og þroskaþjálfa verið efld og aukin áhersla er lögð á meistaranám, rannsóknir og þjónustu við skólakerfið. Síðan Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála tók til starfa hefur auk þess verið stofnað til kennaramenntunar og rannsókna á því sviði við Háskólann á Akureyri. Rannsóknastarfsemi í uppeldis- og kennslufræðum hefur jafnframt aukist í Háskóla Íslands, einkum á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
    Í lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, er gert ráð fyrir að lokapróf í framhaldsskólum verði samræmd í tilteknum greinum og er miðað við að þau verði lögð fyrir í fyrsta skipti árið 2003. Nauðsynlegt er að tryggja að til sé stofnun sem getur sinnt verkefninu með viðhlítandi hætti.
    Óhjákvæmilegt er að taka mið af framangreindri þróun við endurskoðun á lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
     1.      Lagt er til að heiti og hlutverki Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála verði breytt í Námsmatsstofnun og að stofnunin annist hluta þeirra verkefna sem hafa verið unnin á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála samkvæmt lögum nr. 76/1993.
     2.      Lagt er til að lögbundið hlutverk Námsmatsstofnunar verði að annast prófagerð og prófaframkvæmd og rannsóknir tengdar námsmati, þar með taldar samanburðarrannsóknir við skólastarf í öðrum löndum. Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin annist aðrar rannsóknir innan lands á sviði uppeldis- og menntamála en námsmatsrannsóknir. Við alla helstu háskóla landsins starfa rannsóknastofnanir sem m.a. sinna rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála og því óþarfi að á vegum ríkisins sé rekin sérstök rannsóknastofnun á því sviði.
    Með þessari breytingu er stefnt að því að efla prófagerð og prófaframkvæmd og jafnframt styrkja rannsóknir innan sjálfstæðra vísindalegra rannsóknastofnana á sviði mennta- og uppeldismála, þ.e. Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um sjálfstæði Námsmatsstofnunar og að hún heyri undir menntamálaráðherra. Þykir rétt að gera í upphafsgrein laganna grein fyrir hlutverki stofnunarinnar en gert er ráð fyrir því að Námsmatsstofnun sinni einkum prófagerð og prófaframkvæmd. Stofnunin sinni einvörðungu námsmatsrannsóknum innan lands og erlendum samanburðarrannsóknum.

Um 2. gr.


    Í grein þessari er nánar vikið að helstu verkefnum Námsmatsstofnunar. Samkvæmt lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála var það m.a. hlutverk prófa- og matsdeildar stofnunarinnar að sjá um samningu og úrvinnslu samræmdra prófa og könnunarprófa, hafa umsjón með mati á úrlausnum slíkra prófa, sjá um mat á skólastarfi og veita menntamálaráðherra ráðgjöf um námskrárgerð. Megináherslur í starfi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hafa einkum falist í starfi að prófagerð og námsmati. Á stofnuninni hefur því skapast sérþekking sem gerir stofnuninni vel kleift að mæta þörfum menntakerfisins á þessu sviði. Á hinn bóginn er ljóst að eftirlit með skólastarfi er á ábyrgð menntamálaráðuneytisins sem hefur komið á laggirnar sérstakri mats- og eftirlitsdeild, auk þess sem ráðuneytið hefur staðið að útgáfu námskráa án beinnar aðildar Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.
    Samningsbundin verkefni Námsmatsstofnunar skv. 2. mgr. þessarar greinar geta m.a. verið eftirfarandi:
          Að rannsaka og nýta niðurstöður samræmdra prófa í því skyni að bæta prófagerð og þróa skólastarf.
          Að veita skólum ráðgjöf um prófagerð og notkun tiltækra prófa og fylgjast með þróun námsmats í grunn- og framhaldsskólum, enda greiði sveitarfélög og framhaldsskólar fyrir slíka ráðgjöf.
          Að reka rafrænan prófabanka til notkunar í grunn- og framhaldsskólum í samræmi við markmið aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla.
          Að annast samningu, framkvæmd og úrvinnslu annarra prófa í grunn- og framhaldsskólum samkvæmt nánara samkomulagi við menntamálaráðuneytið.

Um 3. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um skipun forstöðumanns stofnunarinnar. Þá eru ákvæði um hlutverk og ábyrgð forstöðumanns í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Um 4. gr.

    Til þess að stuðla að hagkvæmni í rekstri Námsmatsstofnunar er veitt sérstök heimild til að bjóða út vissa þætti í starfi stofnunarinnar. Þá er stofnuninni einnig veitt heimild til að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu fyrir sig.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um skipan og hlutverk stjórnar stofnunarinnar. Stjórninni er fyrst og fremst ætlað að hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, þ.e. að yfirfara og staðfesta starfsáætlanir hennar og fylgjast með framkvæmd þeirra. Stjórnin ber ekki ábyrgð á rekstri stofnunarinnar heldur hvílir sú ábyrgð á forstöðumanni. Í núgildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála starfar sérstök ráðgjafarnefnd við stofnunina en gert er ráð fyrir að stjórn Námsmatsstofnunar taki við störfum hennar.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið skýrt á um að verði frumvarp þetta að lögum skuli það ekki hafa nein áhrif á starfskjör forstöðumanns eða annarra starfsmanna og enn fremur ekki á þær skuldbindingar sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur gengist undir við gildistökuna. Ætlunin er að Námsmatsstofnun yfirtaki þær skuldbindingar.


Fylgiskjal I.


Niðurstaða álitsgerðar stýrihóps menntamálaráðherra um mat á


starfsemi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála.


    Samantekt á tillögum stýrihópsins:
     1.      Sett verði ný lög um stofnunina sem taki mið af nýjum viðhorfum í stjórnsýslu og breyttu hlutverki stofnunarinnar innan nýrra laga um grunnskóla og framhaldsskóla. Treysta ber sjálfstæði stofnunarinnar og skipa henni stjórn.
     2.      Stofnunin ætti að leggja megináherslu á hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í próffræði, samræmd próf, mat á námsárangri og rannsóknir sem bera árangur skólastarfs hér saman við árangur í öðrum löndum. Til að nýta gögn, yfirsýn og reynslu stofnunarinnar og viðhalda færni sérfræðinga hennar gæti stofnunin stundað alhliða rannsóknir á sviði uppeldis- og menntamála í samvinnu við háskólastofnanir hér á landi og erlendar rannsóknastofnanir og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um þær.
     3.      Stofnunin ætti að aðstoða fræðsluyfirvöld í heildarmati á skólastarfi í samvinnu við háskóla og aðrar stofnanir sem sinna uppeldis- og menntamálum.
     4.      Ráðgjafarnefnd samkvæmt gildandi lögum verði lögð niður en í stað hennar skipi menntamálaráðherra þriggja til fimm manna stjórn til að styrkja sjálfstæði stofnunarinnar.
     5.      Endurskoða þarf skipurit stofnunarinnar, hlutverk deildarstjóra fagdeildanna og hlutverk fjármálastjóra sem yfirmanns annarra þátta í starfseminni.
     6.      Gera ætti samning um árangursstjórnun til lengri tíma milli stofnunarinnar og menntamálaráðuneytisins þar sem m.a. yrði tryggilega samið um kostnað við samræmd próf og þess gætt að sá kostnaður fari ekki svo úr böndum að hann skerði ráðstöfunarfé stofnunarinnar til eigin rannsókna.
     7.      Leitað verði að hentugra húsnæði fyrir stofnunina sem hefði nauðsynlegan sveigjanleika til að taka við álagssveiflum sem fylgja samræmdum prófum og tryggði það öryggi sem krefjast verður við samræmt prófahald.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Námsmatsstofnun.

    Með frumvarpinu er lagt til að með nýjum lögum verði Rannóknastofnun uppeldis- og menntamála breytt í Námsmatsstofnun. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur annars vegar annast framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum og hins vegar sinnt hagnýtum og fræðilegum rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála. Ekki er gert ráð fyrir að sú áherslu- og nafnbreyting sem felst í frumvarpinu hafi áhrif á útgjöld ríkisins. Útgjöldin ráðast af fjölda samræmdra prófa og um fjölda þeirra fer eftir grunnskólalögum og framhaldsskólalögum.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði þriggja manna stjórn yfir stofnunina til að hafa eftirlit með starfseminni. Jafnframt er lögð niður sex manna ráðgjafarnefnd samkvæmt gildandi lögum. Að mati fjármálaráðuneytisins á þessi breyting ekki að hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Samkvæmt framansögðu er talið að frumvarpið hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.